Talið er að kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19 hafi smitast fyrst í menn á dýramarkaðinum í borginni Wuhan í Kína. Er hægt að útiloka að fiskur hafi átt þátt í þróun mála?
Kórónuveiran hefur valdið usla um heim allan í rúmt ár og er talið líklegast að hún hafi borist í menn í gegnum smit milli dýrategunda. Frá leðurblöku í pangólín og þaðan beint í menn eða í gegnum annað dýr. Það er hins vegar ekki endilega þannig að veirur sem berast í manneskjur hafi áhrif á þær eða smitist milli þeirra. Það gerist fyrst þegar hefur átt sér stað stökkbreyting sem breytir erfðaefni veirunnar og þannig eðli eða hegðun hennar.
„Þarna átti sér stað örlagarík stökkbreyting,“ útskýrir veirusérfræðingurinn Mette Myrmel hjá norsku hafrannsóknastofnuninni (Havforskningsinstituttet) á vef stofnunarinnar.
Þegar veira byrjar að fjölga sér í manneskju verða breytingar á henni sem oftast eru í óhag veirunnar, en það er hins vegar ekki alltaf tilfellið. „Kórónuveiruafbrigðið sem veldur heimsfaraldrinum nú er stökkbreyting sem gerir það að verkum að veiran getur smitast milli manna,“ segir Myrmel.
Fjöldi dæma er um að veiran haldi áfram að stökkbreytast eftir því sem hún berst milli manna og má nefna þau afbrigði af henni sem hafa mismunandi eiginleika, svo sem breska afbrigðið sem smitast auðveldlega milli manna. Einnig er meðal annars að finna suðurafrískt afbrigði og brasilískt afbrigði.
Þá var greint frá því um miðjan mars að franskir vísindamenn hefðu fundið nýtt afbrigði af veirunni og sögðu indversk stjórnvöld nýverið frá því að greinst hefði sérstakt afbrigði með tvöfalda stökkbreytingu.
Í ljósi þess að veiran stökkbreytist; er hægt að útiloka að veiran hafi komið frá fiski á markaðnum í Wuhan? Myrmel segir það útilokað vegna þess að fiskar búa í allt öðru umhverfi en dýr á landi auk þess sem fiskar hafa allt annan líkamshita og geta kórónuveirur ekki lifað við þessar aðstæður. Veiran einfaldlega eyðist of auðveldlega í vatni þar sem hún þolir ekki sólarljós og náttúruleg efni sem finna má í umhverfinu.
„Í öðru lagi þurfa allar veirur á því að halda að frumurnar okkar hafi ákveðna viðtaka að utan sem þær geta fest sig við áður en þær fara inn og fjölga sér,“ útskýrir Myrmel. Staðreyndin sé sú að mörg spendýr eru með sams konar viðtaka á frumum sínum sem kórónuveirur geta nýtt sér og geta slíkar veirur því farið milli dýrategunda. Þetta á bæði við um fyrstu SARS-veiruna og nýju kórónuveiruna sem á fagmálinu heitir SARS-CoV-2. Fiskar hafa ekki þessa gerð viðtaka á sínum frumum.
„Fræðilega er ekki hægt að útiloka að fiskur geti smitast af kórónuveiru einhvern tímann í framtíðinni,“ segir hún og bætir við að í reynd sé það þó afar ólíklegt.
Í júní á síðasta ári sögðu 200 mílur á mbl.is frá því að stórar dagvöruverslanir í Peking í Kína, þar á meðal Carrefour og Wumart, stöðvuðu sölu á laxi í kjölfar þess að greindist kórónuveira á skurðbrettum heildsala í borginni. Greip um sig ótti um að smit gæti borist í laxaafurðir. Í kjölfarið gripu fleiri borgir og héruð í Kína til aðgerða og féll meðalverð á laxi um 14,61% á mörkuðum.
„Það getur ekki hafa verið frá fiskflakinu sjálfu, heldur einhver sem hefur unnið það sem kann að hafa hóstað á laxinn eða skurðbrettið eða haft veiruna á höndunum,“ fullyrðir Myrmel. Þegar veira greinist er ekki vitað hvort um sé að ræða virkar eða dauðar veirur.
Þá telur hún litla ástæðu til að óttast matvæli sem eru menguð með virkum veiruögnum. „Veiran smitar ekki með þessum hætti. Í fyrsta lagi þarf veiran að ná að komast hjá því að eyðast meðan hún er á matnum. Svo þarf veiran að fara í meltingarveginn þar sem lágt pH-gildi eyðileggur hana.
Hins vegar hafa sumir smitaðir verið greindir með sýkingu í meltingarvegi. Þetta er vegna þess að þeir hafa framleitt mikið magn af veirunni í öndunarvegi sem þeir hafa gleypt ásamt slími. Þetta slím hefur verndað veiruagnirnar þannig að þær hafa komist í gegnum magann án þess að eyðileggjast,“ útskýrir veirusérfræðingurinn norski.