Vill mæta gagnrýni með samtali

Þorsteinn Sigurðsson, nýr forstjóri Hafrannsóknastofnunar, kveðst hlakka til að takast …
Þorsteinn Sigurðsson, nýr forstjóri Hafrannsóknastofnunar, kveðst hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða honum hjá stofnuninni. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég hlakka mikið til, en er enn að koma mér inn í hlutina og er með starfsfólkinu að greina stöðuna. Það er fyrsta skrefið að átta sig á hvar við erum áður en við förum skrefin áfram, en þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ svarar Þorsteinn Sigurðsson, sem skipaður var forstjóri Hafrannsóknastofnunar frá og með 1. apríl, er blaðamaður spyr hvernig honum líki nýja starfið.

Þorsteinn hefur ávallt tengst hafinu á einn eða annan hátt enda alinn upp á Norðfirði og hóf sinn starfsferil þar, bæði í frystihúsi og saltfiskvinnslu. Mörgum sumrum eyddi hann á sjó á meðan hann var unglingur og í námi auk þess sem Þorsteinn var tvö ár á fiskiskipum, bæði uppsjávarskipi og togara. „Það má segja að áhuginn hafi vaknað þarna, sem síðar leiddi mig í líffræði í Háskóla Íslands og þaðan í framhaldsnám til Noregs í fiskifræðum,“ segir Þorsteinn sem er fiskifræðingur með BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og cand. scient-gráðu frá Háskólanum í Bergen.

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar að störfum.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar að störfum. Ljósmynd/Svanhildur Egilsdóttir

Hann hefur starfað um árabil hjá Hafrannsóknastofnun og hefur stundað rannsóknir á karfa og uppsjávarfiskum. Þá leiddi Þorsteinn í 10 ár nytjastofnasvið gömlu Hafrannsóknastofnunar og uppsjávarsvið stofnunarinnar frá 2016 til 2019.

Hann segir þekkinguna frá fyrri störfum fyrir stofnunina hjálpa sér mikið, en kveðst alls ekki þekkja allt og því mikilvægt að koma sér inn í málefni sem hann þekkti minna þegar hann tók til starfa sem forstjóri. „Eins og málefni fiskeldisins, sem er gríðarlega mikilvægt málefni fyrir okkur öll, og málefni ferskvatnsfiska.“

Þorsteinn segir mikilvægt að tryggja góða kynningu á veiðiráðgjöf stofnunarinnar.
Þorsteinn segir mikilvægt að tryggja góða kynningu á veiðiráðgjöf stofnunarinnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar virðist alltaf fá misjafnar viðtökur enda miklir hagsmunir í húfi. Spurður hvort slíkt sé óhjákvæmilegt svarar Þorsteinn: „Það er auðvitað þannig með ráðgjöf sem byggir á rannsóknum á ástandi stofna að það verða ávallt skiptar skoðanir á þeirri ráðgjöf. Ég er þeirrar skoðunar að við kynningu á ráðgjöf megi auka kynninguna þannig að þeir sem gagnrýna ráðgjöfina sjái enn betur hvað liggi þar að baki og hvaða aðferðafræði er beitt við ráðgjöf auðlinda hafsins.“

„Það er auðvitað þannig að þau gögn sem stofnunin er með til að undirbyggja ráðgjöf eru það umfangsmikil að þau gefa miklu betri heildarmynd af ástandinu heldur en einstaka menn sem gagnrýna ráðgjöfina hafa. Þannig að það er stundum erfitt að tækla alla gagnrýnina en við munum í framtíðinni, eins og gert hefur verið, leitast við að eiga virkt samtal,“ segir hann.

Vilja meira en fjármagn leyfir

Hafrannsóknastofnun býr yfir tveimur rannsóknaskipum og er Árni Friðriksson það yngra og var skipið smíðað árið 2000 í Síle, en Bjarni Sæmundsson er töluvert eldra skip og var smíðað 1970 í Bremerhaven í Þýskalandi.

„Það er sem betur fer verið að endurnýja gamla Bjarna Sæmundsson sem er kominn á sextugsaldurinn. Það er gaman að segja frá því að það sé búið að senda út í gegnum Ríkiskaup beiðni um forvalsútboð sem verður opnað í næsta mánuði og út frá því verður haldið útboð með þeim sem teljast hæfir í forvalinu. [...] Mikilli vinnu er lokið vegna hönnunar skipsins en það verður spennandi verkefni að taka við keflinu og fylgja því eftir. Við vonumst til að skipið verði klárt 2023,“ segir Þorsteinn um skipakost stofnunarinnar.

Þá segir hann fleiri áskoranir á sjóndeildarhringnum. „Við erum, eins og aðrar ríkisstofnanir, að glíma við það að menn vilja gera miklu meira en fjármagn leyfir og þess vegna eru fyrstu skrefin að greina stöðuna svo við getum fylgt þeim ramma sem fjárlögin setja okkur. Á sama tíma þurfi að efla eins og kostur er samstarf við systurstofnanir og háskóla auk þess sem sækja þarf áfram í samkeppnissjóði til að efla rannsóknir.“

Bjarni Sæmundsson leggst að bryggju í Hafnarfirði við nýjar höfuðstöðvar …
Bjarni Sæmundsson leggst að bryggju í Hafnarfirði við nýjar höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar. mbl.is/Árni Sæberg

„Það má ekki gleyma því að það eru gríðarlegar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð í tengslum við loftslagsbreytingar sem eru að eiga sér stað. Það er stórt verkefni og mikill vilji starfsmanna hér að takast á við. Við gerum það með grunnrannsóknum og vöktun.“ Bendir Þorsteinn á að þegar hafa orðið breytingar í hafinu sem hafa haft áhrif á land og þjóð og vísar til þess hvernig útbreiðsla loðnunnar hefur breyst auk annarra tegunda.

Stofnunin vinnur nú að samantekt um umhverfis- og vistkerfisbreytingar í hafinu umhverfis Ísland og mögulegar sviðsmyndir eða afleiðingar áhrifa loftslagsbreytinga.

Vill skapa traust

„Ágreiningur innan stofnunarinnar var áberandi undir lok árs 2019. Það er mín von og mín trú að þau mál séu leyst og að ekki þurfi að glíma við slík mál inn í framtíðina,“ svarar Þorsteinn spurður um stöðu mannauðsmála. Þá sé það ósk hans að hægt verði að stuðla að enn meiri starfsánægju þar sem traust og virðing séu höfð í hávegum.

„Ég fékk mjög góðar viðtökur þegar ég mætti til starfa eftir páska og horfi björtum augum til framtíðarinnar og starfseminnar, hvort sem er í rannsóknum á ferskvatni, eldi eða hafinu umhverfis landið. Verkefnin eru næg og við finnum til ábyrgðar að sinna þeim sem best. Þetta er þvílíkur mannauður sem á stofnuninni starfar og ég hlakka til að takast á við verkefnin með þeim öllum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,58 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 469,01 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 202,59 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 309,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.1.25 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 3.805 kg
Samtals 3.805 kg
24.1.25 Jóhanna Gísladóttir GK 357 Botnvarpa
Þorskur 24.890 kg
Karfi 15.350 kg
Ýsa 3.583 kg
Ufsi 2.003 kg
Samtals 45.826 kg
24.1.25 Háey I ÞH 295 Lína
Þorskur 695 kg
Steinbítur 158 kg
Keila 110 kg
Ufsi 20 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 14 kg
Samtals 1.015 kg
24.1.25 Cuxhaven NC 100 Botnvarpa
Þorskur 203.725 kg
Karfi 29.765 kg
Ufsi 1.326 kg
Hlýri 854 kg
Steinbítur 94 kg
Grálúða 13 kg
Samtals 235.777 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 23.1.25 594,58 kr/kg
Þorskur, slægður 23.1.25 721,50 kr/kg
Ýsa, óslægð 23.1.25 469,01 kr/kg
Ýsa, slægð 23.1.25 398,51 kr/kg
Ufsi, óslægður 23.1.25 202,59 kr/kg
Ufsi, slægður 23.1.25 276,83 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 21.1.25 249,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 23.1.25 309,57 kr/kg

Fleiri tegundir »

24.1.25 Erling KE 140 Þorskfisknet
Þorskur 3.805 kg
Samtals 3.805 kg
24.1.25 Jóhanna Gísladóttir GK 357 Botnvarpa
Þorskur 24.890 kg
Karfi 15.350 kg
Ýsa 3.583 kg
Ufsi 2.003 kg
Samtals 45.826 kg
24.1.25 Háey I ÞH 295 Lína
Þorskur 695 kg
Steinbítur 158 kg
Keila 110 kg
Ufsi 20 kg
Ýsa 18 kg
Karfi 14 kg
Samtals 1.015 kg
24.1.25 Cuxhaven NC 100 Botnvarpa
Þorskur 203.725 kg
Karfi 29.765 kg
Ufsi 1.326 kg
Hlýri 854 kg
Steinbítur 94 kg
Grálúða 13 kg
Samtals 235.777 kg

Skoða allar landanir »