Stofnvísitala þorsks er hefur hækkað frá því í fyrra samkvæmt nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunnar um stofnmælingu botnfiska úr marsralli.
Stofnvísitalan hefur lækkað frá hámarki áranna 2015 til 2017 og er nú svipuð og árin 2018 og 2019.
Stofnvísitala þorsks hækkaði nærsamfellt árin 2007 til 2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski.
„Sem betur fer er mælingin aðeins skárri [en í fyrra] en hún er samt lág. Við höfum áhyggjur af því hvað það mun þýða í vor þegar við gefum út ráðgjöf. Góðu fréttirnar eru að það eru líkur á góðri nýliðum en bæði 2019 og 2020 árgangurinn líta vel út,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri á botnsjávarsviði Hafrannsókarstofnunnar. hann segir samt of snemmt að segja til.
Fram kemur í skýrslu Hafró að fyrsta mæling á þorskárgangi 2020 bendir til að hann sé yfir meðaltali frá árunum 1985 til 2021. Sama gildir um þorskárgang 2019 sem mælist yfir meðaltali tveggja ára þorska.
Áfram mælist árgangur 2016 lítill, 2017 og 2018 undir eða í kring um meðaltal og árgangar 2007 til 2012 yfir meðaltali.
Þorskurinn mælist stór eins og fyrri ár. Mikið var af 90 til 105 sentímetra þorski, sem er um 7 til 10 kíló. Þá var fjöldavísitala 65 til 90 sentímetra þorska einnig yfir meðaltali.
Vísitala 50 til 60 sentímetra þorsks var undir meðaltali sem skýrist með lélegri nýliðun árið 2016.
Mikið var af loðnu í maga þorska í marsrallinu.
Horfur eru á góðum árgöngum í ýsu. Sem kunnugt er hefur verið góð veiði á ýsu í ár. Svo mikil að hún hefur þvælst fyrir öðrum veiðum.
Guðmundur útskýrir að ráðgjöf hafi lækkað við endurmat aflareglu fyrir tveimur árum þar sem veiðihlutfall var lækkað. Hann segir lélegan árgang ýsu vera að ganga í gegn en framtíðarhorfur séu góðar.
„Líklegt er að ýsa muni vaxa á næstu árum. Kannski ekki strax á næsta ári en mögulega eftir 2023 gæti hún farið að vaxa verulega.“
Stækkun stofn grásleppu kom vel fram í stofnmælingunni.