Ein eilífðardeila þeirra sem veiða fisk, hvort sem það er í vatni eða sjó, er hver hafi veitt stærsta fiskinn. Fjöldi frásagna um stóra þorska hefur borist 200 mílum í kjölfar þess að fjallað var um risaþorsk sem áhöfnin á Sólrúnu EA-151 veiddi við Kolbeinsey í síðustu viku. Vó þorskurinn við löndun á Árskógssandi í Eyjafirði hvorki meira né minna en 51 kíló.
Umfjöllunin vakti mikla athygli og veltu margir því fyrir sér hvort um hafi verið að ræða stærsta þorsk Íslandssögunnar. Leitað var til lesenda og auglýst eftir upplýsingum um þorska af svipaðri stærð eða jafnvel stærri. Óhætt er að segja að sögur fóru að berast ört.
Davíð Páll Bredesen segir frá því í tölvupósti að hann hafi náð stórum þorski á handfæri á Víkurálnum árið 1993 er hann var háseti um borð í Kristínu Finnbogadóttur BA-95, sem Ólafur Magnússon gerði út. „Ég veiddi þorsk sem viktaði 25 kíló eftir flatningu og mældist 1,45 metrar. Við vorum á saltfiskeríi og flöttum alla fisk um borð. Þegar þorskur er flattur er nýtingin um 45-48% sem þýðir að hann er 52-55 kíló,“ fullyrðir hann.
Aðspurður segir hann ekki lítið verk að hafa komið flikkinu um borð. „Einar Ásgeirsson varð vitni að því þegar ég togaði sjálfan mig næstum útbyrðis. Einar náði að grípa í mig þegar hann sér lappir mínar lyftast af dekkinu. Mér er mjög minnisstætt hversu mikið hann hló að mér fyrir það að gefa mig ekki í viðureigninni við þorskinn. Þetta hafðist þegar við hjálpuðumst að við að ná honum inn fyrir.“
Valgeir Gunnarsson, stýrimaður á Helgafelli, rifjar upp tíma sína um borð í Hrímbaki EA-306 á árunum 1990 til 1995. „Mig minnir að það hafi verið árið 1993 sem við fengum einn risaþorsk. [...] Það var tekin mynd af okkur saman af Gylfa Kristjánssyni blaðamanni og birtist í DV.“
Fram kemur í umfjöllun DV þann 24. apríl 1993 að það hafi ekki munað mjög miklu á lengdinni á Valgeiri og þorskinum. Þar segir að þorskurinn hafi veiðst á Eldeyjarbanka og mælst 157 sentimetra langur, ummálið var 112 sentimetrar og sennilega hefur hann vegið um 50 kíló.
„Ég á einn uppstoppaðan,“ segir Helgi Már Reynisson í tölvupósti. Hann segir þann myndarlega þorsk hafa verið veiddan af Frá VE-78 á Víkinni, sunnan við Vík í Mýrdal. Helgi Már kveðst hafa keypt fiskinn blautverkaðan og flattan. „Þá var hann 25,6 kíló. Nýting á blautverkuðum saltfiski er 48% þannig að óslægður hefur hann verið 53,3 kíló. Ég þurrkaði fiskinn og sprautaði og hef hann uppi á vegg hjá mér.“ Hann telur þorskinn veiddan einhvern tímann á árunum 1992 til 1997.
Þá hefur verið bent á að Hoffell SU hafi í maí 1991 veitt þorsk í kantinum við Berufjarðarál sem var 167 sentimetrar á lengd. Vó þorskurinn 45 til 46 kíló slægður og var talið að hann hefði verið um 55 kíló óslægður. „Þetta var feit hrygna og gellan úr henni var svo stór að hún nægði í matinn handa annarri vaktinni á Hoffellinu,“ var haft eftir Eiríki Ólafssyni, útgerðarstjóra Hraðfrystihúss Fáskrúðsfjarðar, í Morgunblaðinu 15. maí 1991.
Stærsti þorskurinn sem bent hefur verið á er 68 kílóa þorskur sem veiddist árið 1985 af áhöfninni á Hafborgu SK-50. Skipstjóri í ferðinni var Uni Pétursson. Frekari upplýsingar um það afrek hafa ekki fundist og er með þessu óskað eftir því að lesandi sem kann að vita meira um málið hafi samband.
Lagt var í töluverða vinnu við að afla upplýsinga um hver stærsti þorskur Íslandssögunnar hafi verið, til að ganga úr skugga um hvort þorskurinn hafi verið sá stærsti. Leitað var til sérfræðinga sem sögðu erfitt að skjalfesta með afgerandi hætti hvort um stærsta fisk hafi verið að ræða.
Samkvæmt fiskabók Gunnars Jónssonar var lengsti þorskur sem veiðst hefur við Íslandsstrendur 181 sentimetri á lengd og veiddist hann á línu í Miðnessjó í apríl 1941. Ekki er vitað um þyngdina en líffræðingar hafa gefið sér allt frá 45 til 60 kíló.
Þyngsti þorskur sem veiðst hefur á heimsvísu samkvæmt skráðum heimildum vó 73 kíló og var tveir metrar að lengd, en hann veiddist við Nýfundnaland. Jón Már Halldórsson líffræðingur segir hins vegar á Vísindavefnum að „þegar haft er í huga hversu lengi menn hafa stundað þorskveiðar þá er mjög líklegt að einhvern tíma hafi veiðst enn stærri þorskur.“