Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 27,3 milljörðum króna í apríl og er það 54% aukning miðað við sama mánuð í fyrra. Aukningin er hins vegar enn meiri þegar tekið er tillit til gengisáhrifa, en þá mælist aukningin 61%, að því er fram kemur í færslu á Radarnum.
„Þessi mikla aukning litast vissulega af áhrifum COVID-19 á útflutning sjávarafurða í apríl í fyrra, enda var mikil ringulreið á mörkuðum á þeim tíma og verulegt rask varð á flutningum á milli landa,“ segir í færslunni, en bent er á að fleiri breytur hafa áhrif á þessa þróun og er bent á að verðmæti útfluttra sjávarafurða á föstu gengi hefur ekki verið meira í aprílmánuði frá árinu 2002.
336 prósent
Útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski nam 3,3 milljarða í apríl og er það um 161% aukning frá sama mánuði í fyrra. Aukningin skýrist líklega af útflutningi á heilfrystri loðnu, en engin loðna var flutt út í apríl í fyrra í kjölfar tveggja ára loðnubrests.
Þá varð myndarleg aukning í vöruflokknum „aðrar sjávaraurðir“ og nam útflutningsverðmæti þeirra 5,5 milljörðum króna sem er 336% meira en í aprílmánuði í fyrra. Á radarnum segir að ætla megi að „fryst loðnuhrogn séu afar fyrirferðamikil“ í þessum flokki. „Loðnan er ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland og hefur skilað næstmestum útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum fisktegundum undanfarinn áratug.“
93 milljarðar
Á fyrsta ársfjórðungi nam útflutningsverðmæti sjávarafurða rúmlega 93 milljörðu króna og er það um 15% hærra en á sama tímabili í fyrra, en aukningin nemur 10% ef tekið er tillit til gengisáhrifa. Á síðastliðnum áratug hafa verðmætin aðeins einu sinni verið meiri en það var 2019 þegar útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrsta ársfjórðungi nam 93,8 milljörðum króna.