Framkvæmdir eru hafnar við grunn verksmiðjuhúss plastkassaverksmiðju á Djúpavogi. Stefnt er að því að verksmiðjan taki til starfa í lok ársins eða byrjun þess næsta. Reiknað er með að þar verði framleiddar á næsta ári 1,2 til 1,3 milljónir frauðplastkassa fyrir laxeldisfyrirtækin sem standa að laxasláturhúsinu Búlandstindi. Búlandstindur hefur hug á að hefja flökun á laxi fyrir útflutning til Bandaríkjanna.
Nýlega var byrjað að grafa fyrir grunni verksmiðjuhússins sem standa mun á lóð við Innri-Gleðivík. „Húsið hefur stækkað svolítið frá því sem áformað var í upphafi, við erum stórtækari,“ segir Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds á Djúpavogi. Hann er einn af eigendum sjávarútvegsfyrirtækisins Ósness sem stendur að rekstri Búlandstinds ásamt Fiskeldi Austfjarða og Löxum fiskeldi og á 51% í fyrirtækinu sem er að reisa kassaverksmiðjuna. Norska fyrirtækið BEWI, sem er stórt í framleiðslu fiskikassa í Noregi og víðar í Evrópu, á 49% hlut.
Verksmiðjuhúsið verður 2.800 fermetrar að grunnflatarmáli. Það er stálgrindarhús sem verið er að útbúa úti í Póllandi.
Fimm starfsmenn verða í upphafi við kassaverksmiðjuna. BEWI Iceland, eins og fyrirtækið heitir, hefur þegar auglýst eftir verksmiðjustjóra.
Forsendan fyrir byggingu plastkassaverksmiðju á Djúpavogi er laxaslátrunin þar. Elís segist eiga í góðu viðskiptasambandi við fyrirtæki í Hafnarfirði sem framleiðir kassana nú en þá þurfi að flytja austur með ærnum tilkostnaði. Kassarnir eru ákaflega léttir en fyrirferðarmiklir. Segir Elís að með því að flytja hráefnið inn beint til Austfjarða og framleiða kassana í næsta nágrenni við notkunarstaðinn minnki kolefnisspor framleiðslunnar umtalsvert.
Elís segir að áætlanir sýni að rekstur kassaverksmiðjunnar verði hagkvæmur. „Þessi starfsemi byggist mikið á magni. Við erum bjartsýnir og höfum tröllatrú á þessu verkefni og laxeldi almennt. Þess vegna erum við tilbúnir að leggja út í þetta,“ segir Elís.
Áætlað er að stofnkostnaður húss og tæknibúnaðar geti nálgast 1,5 milljarða króna. Laxeldið á Austurlandi gæti þurft 1,2 til 1,3 milljónir kassa á næsta ári og þörfin aukist svo áfram með aukinni framleiðslu á laxi. Hægt verður að framleiða tvær til þrjár milljónir kassa í verksmiðjunni. Húsið er byggt með framtíðina í huga, þannig að hægt verður að bæta við vélasamstæðum ef þörf verður á.
Þar verða í upphafi framleiddar fáeinar tegundir kassa fyrir laxeldið en Elís útilokar ekki að hægt verði að selja kassa til annarra útflytjenda á ferskum fiski frá Austurlandi.
Búlandstindur er að huga að flökun á laxi fyrir Fiskeldi Austfjarða sem hefur góðan markað í Bandaríkjunum en hefur á tímum kórónuveirufaraldurs orðið að láta flaka fyrir sig í Póllandi. Elís segir að sérstaka kassa þurfi undir flökin.
„Okkur langar til að reyna okkur við flökun og höfum gert tilraunir með það. Það eykur virðisauka framleiðslunnar í landinu. Við megum þó ekki gleyma grunnatriðum starfseminnar, sem er að slátra laxi og ganga frá honum til útflutnings,“ segir Elís.