Loðnuvinnslan hf. (LVF) og Skaginn 3X sömdu nýlega um nýtt vinnslukerfi fyrir frystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Það mun bæði auka sjálfvirkni og afkastagetu Loðnuvinnslunnar. Afkastagetan mun aukast um allt að 400 tonn á sólarhring sem er um 70% afkastaaukning frá því sem nú er. Nýja kerfið er hannað til að framleiða hágæðavöru á sem hagkvæmastan hátt, samkvæmt fréttatilkynningu frá Skaganum 3X.
Frystihús Loðnuvinnslunnar er sérhæft til að vinna uppsjávarfisk, það er loðnu, síld og makríl. „Loðnan er heilfryst á markaði í Austur-Evrópu og Asíu en einnig eru hrogn unnin fyrir sömu markaði,“ segir í tilkynningunni.
Vinnsla uppsjávarafla er háð árstíðabundnum veiðum og skiptir því miklu að geta nýtt auðlindina á réttum tíma og með réttum aðferðum. Skaginn 3X segir að tæknilausnir fyrirtækisins séu hannaðar til að viðhalda gæðum vörunnar og ná þannig hámarksafrakstri í vinnslu. Með þessum endurbótum verði Loðnuvinnslan mun betur í stakk búin til að nýta auðlindina sem best á næstu vertíðum.
Uppsjávarkerfin frá Skaganum 3X eru afar skilvirk. Þessi tækni hefur þjónað nokkrum stærstu uppsjávarvinnslum í heiminum.
Í nýja kerfinu sem verður sett upp hjá Loðnuvinnslunni er pokakerfi, nýir plötufrystar og sjálfvirkt brettakerfi. Búnaðurinn verður tengdur vélum sem fyrir eru og nýjum búnaði frá öðrum framleiðendum. Þar á meðal eru þjarkar sem auka enn á sjálfvirknina í frystihúsinu.
„Skaginn 3X hefur mikla reynslu í hönnun og uppsetningu á stórum heildarkerfum fyrir uppsjávarvinnslu. Það tók því ekki langan tíma fyrir þrjá sérfræðinga fyrirtækisins að hanna kerfið fyrir LVF. Þeir mættu austur, teiknuðu kerfið upp á staðnum og tæpum mánuði seinna var samningur undirritaður,“ segir enn fremur í tilkynningunni.