Aflaskipið Kleifaberg fær nýtt hlutverk í sumar þegar það verður annað heimili ástralsks leiðangurs sem hefur leyfi til að leita verðmætra málma á norðausturströnd Grænlands. Um rannsóknaleiðangur er að ræða og verður meðal annars borað eftir sýnum með námuvinnslu í huga.
Gálginn hefur verið skorinn aftan af Kleifaberginu og vinnu- eða þyrlupallur settur upp á dekkinu. Skipið var smíðað í Póllandi 1974 og var lengi með fengsælustu frystitogurum landsins. Áður en haldið verður til Grænlands fær skipið nýtt nafn. Fiskvinnslu- og frystitæki hafa verið fjarlægð úr skipinu og er mikið rými á millidekki.
Til vinnu á sérútbúinni þyrlu
Ægir Örn Valgeirsson, framkvæmdastjóri Skipaþjónustunnar, sem á Kleifabergið, segir að hugmyndin sé sú að leiðangursmenn gisti um borð í skipinu. Þeir fari til vinnu á sérútbúinni þyrlu og komi með henni heim á kvöldin. 28 kojur eru um borð og reiknar Ægir með að þær verði fullnýttar.
Hafnir eru ekki á þessu svæði við austurströnd Grænlands og fer hópurinn í næsta mánuði um leið og hafísinn gefur eftir. Reiknað er með að vera við Grænland fram í september-október eða þar til ísinn lokar svæðinu á ný.
Kleifaberg RE-70 var Í mörg ár meðal aflahæstu skipa og stór hluti aflans sóttur í Barentshaf.
Ljósmynd/Bragi Ragnarsson
Til stóð að fara í stórt verkefni með ástralska fyrirtækinu í fyrra, en minna varð úr en efni stóðu til vegna kórónufaraldursins. Þó var togarinn Steinn um tíma við Grænland og þjónustaði hóp á vegum Ástralanna. Það skip bar meðal annars áður nafnið Kristín GK og var síðast gert út af Vísi í Grindavík. Skipið var smíðað í Austur-Þýskalandi 1965. Faraldurinn hefur enn áhrif á verkefnið, en þó ekki þannig að því verði frestað.
Auglýst hefur verið eftir yfirmönnum á Kleifabergið til að fara í Grænlandsverkefnið. Helstu verkefni Skipaþjónustunnar og Icetugs eru hins vegar rekstur dráttarbáta, sem eru bæði með ýmis föst og tilfallandi verkefni. Þá er verið að undirbúa að sigla togaranum Mars RE, áður Sturlaugi Böðvarssyni AK, til Belgíu, þar sem skipið fer í brotajárn. Að sögn Ægis liggja öll leyfi fyrir siglingunni nú fyrir.