Heildarfjárfestingar í fiskveiðum og fiskvinnslu, þjónustu við fiskveiðar og fiskeldi á árunum 2008 til 2019 námu 236 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.
Þar segir að mest hafi verið fjárfest í bátum og skipum eða fyrir um 108 milljarða króna. Næstmest hefur verið fjárfest í fiskvinnslu og nema fjárfestingarnar 97 milljörðum. Í fiskeldi hefur verið fjárfest fyrir 25 milljarða á tímabilinu og 6 milljarða í fjölbreyttri þjónustu við fiskveiðar.
Töluverða sveiflu er að finna í fjárfestingum milli ára en það kann að skýrast af því að stök verkefni kunna að vera fyrirferðarmikil og skipt mörgum milljörðum. Til að mynda var fjárfest fyrir 105 milljarða bara á árunum 2015 til 2017, þar af var fjárfest í nýjum skipum fyrir 54 milljarða króna. Stöðugri þróun hefur verið í fiskvinnslunum og hefur verið fjárfest fyrir 11 til 14 milljarða á hverju ári á tímabilinu 2015 til 2019.
„Líkt og í öðrum atvinnugreinum ráðast fjárfestingar í sjávarútvegi af framtíðarhorfum og væntum ávinningi, en einnig af afkomu undanfarinna ára. Þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum hafa verið nauðsynlegar vegna þess hve fiskiskipastóllinn var orðinn gamall, en auk þess hafa þær gert fyrirtækjum mögulegt að innleiða nýja tækni og skipulag um borð í skipunum og draga úr eldsneytisnotkun.
Nýju skipin eru í mörgum tilvikum öflugri en hin eldri og því hefur einnig verið hægt að sameina aflaheimildir á færri skip og þannig auka enn fremur hagkvæmni við veiðarnar,“ segir í skýrslunni.
Töluvert hefur verið fjárfest í fiskeldi hér á landi á undanförnum árum og hafa þær vaxið ört. Á árunum 2008 og 2009 voru fjárfestingar í greininni einungis 600 milljónir króna en tvöfölduðust síðan í 1,1 til 1,4 milljarða árin á eftir. Náðu fjárfestingar í greininni hámarki 2017 er fjárfest var fyrir 6,8 milljarða króna, en 2018 námu fjárfestingar 3,5 milljörðum og 2,7 milljörðum árið 2019.
Benda skýrsluhöfundar á að fiskeldi sé fjármagnsfrek atvinnugrein enda kostnaðarsamt að byggja upp innviðina og biðin eftir afköstum löng. Það tekur um tvö til þrjú ár fyrir eldislax í sjókví að ná sláturstærð.
„Aðkoma norskra fjárfesta hefur því verið mikilvæg en áhugi innlendra fagfjárfesta á fiskeldi hefur farið vaxandi, svo sem glöggt kom fram í hlutafjárútboði Iceland Salmon AS, móðurfélags Arnarlax í október 2020, en félagið er skráð á hlutabréfamarkaði í Noregi (margföld eftirspurn var í hlutafjárútboði Arnarlax 2020). Norska fjárfestingafélagið Måsøval Eiendom AS á ráðandi hlut í Ice Fish Farm AS, sem er eignarhaldsfélag Fiskeldis Austfjarða hf., og fyrirtækinu Laxar fiskeldi ehf. Ice Fish Farm AS er skráð á hlutabréfamarkaði í Noregi. Þá á norska fiskeldisfyrirtækið Norway Royal Salmon ASA (NRS) helmingshlut í Arctic Fish ehf. sem er móðurfyrirtæki Arctic Sea Farm hf. NRS er skráð á hlutabréfamarkaði í Noregi,“ segir um fjárfestingar í fiskeldi í skýrslunni.
Þá fylgi norska fjármagninu einnig mikilvæg tækniþekking og reynsla af eldisstarfsemi sem skýrsluhöfundar telja nýtast við uppbyggingu greinarinnar hér.