Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun láta af embætti í haust enda sækist hann ekki eftir endurkjöri. Hann segist ganga þakklátur og stoltur frá borði og kveðst ekki vita hvað taki nú við. Kristján saknar oft sjómennskunnar og kveðst ekki útiloka að hann snúi aftur til sjós.
Merking og innihald sjómannadagsins hefur kannski breyst í áranna rás, frá því honum var komið á laggirnar. Það hefur gerst samhliða þeim breytingum sem hafa orðið í greininni og ekki síður í þjóðfélaginu. Í mínum huga, og eflaust flestra sem rekja uppruna sinn til sjávarplássa og eru í mínum aldurshópi, þá er þetta dagur sem hefur yfir sér mikinn hátíðarblæ. Dagur sem er gríðarlega mikilvægur. Hann er ekki bara til heiðurs sjómönnunum sjálfum heldur einnig fjölskyldum þeirra sem saman lögðu grunninn undir það þjóðfélag sem Íslendingar nútímans búa við,“ segir Kristján.
Hann telur daginn gott tilefni til að líta um öxl og minnast þess hve mikið starf stéttarinnar hefur breyst. Öryggismálum er betur sinnt, allur aðbúnaður betri og fjarskipti orðin langtum betri en tíðkaðist fyrir fáum árum. „Það er því margt sem hefur batnað til muna en það er þó eitt sem breytist aldrei og það er fjarvera frá nánasta fólki og aðgengi að samfélagslegri þjónustu er allt annað en aðrir búa við.“
Kristján talar af persónulegri reynslu en hann var við sjómennsku um árabil og segir það hafa verið náttúrulegan farveg fyrir ungan einstakling í sjávarþorpinu þar sem hann ólst upp, Dalvík í Eyjafirði. „Dalvík city eins og við köllum það. Þetta er miðpunktur alheimsins eins og allir vita. Þar ólst maður upp við það að allt sem átti sér stað í bæjarfélaginu tengdist sjónum með einum eða öðrum hætti. Fjölskylda mín, bæði í föður- og móðurætt, hafði rík tengsl við sjóinn og þá dregst maður bara ósjálfrátt með inn í þetta,“ segir hann og fer að rifja upp æskuminningar.
„Ég fékk að fljóta með á árabát á grásleppu með Kidda gamla á Miðkoti þegar maður var bara pjakkur. Trilluni Bjarma úr Efstakoti sömuleiðis. Maður var mikið hjá pabba og körlunum á netaverkstæðinu. Svo fer maður á sjó sjálfur, í fyrsta sinn á togara á sextánda aldursári og var þar svo öll sumur í gegnum alla skóla.“
„En sjómennskan er þannig að þegar maður fer ungur inn í þetta ríður á svo miklu hvernig áhöfnin tekur við svona einstaklingi sem kemur óharðnaður um borð, eins og ég var. Þar voru mér eldri menn, allnokkrum árum og líka töluvert eldri. Maður fann það bara hvernig manni var tekið af þessum körlum, þeir kenndu manni og fóstruðu mann á meðan maður kunni nánast ekkert í þessum fyrstu túrum. Þessir jaxlar taka utan um mann og koma þér til manns og eru miklu mýkri menn en þeir vilja vera láta.“
Kristján lauk skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1978 og starfaði sem stýrimaður og skipstjóri, vann sem kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík auk þess sem hann lauk námi í íslensku og almennum bókmenntum auk kennsluréttinda. „Ég var búinn að ráða mig sem skipstjóra á togbát 1986 þegar ég sótti um starf bæjarstjóra heima á Dalvík og fékk það. Frá þeim tíma er ég búinn að vera í þessu pólitíska þjarki.“
Saknarðu sjómennskunnar?
„Oft er það já. Það er margt í starfi sjómannsins sem maður saknar. Veiðin, samfélagið um borð og nábýlið við náttúruna sem er ríkur þáttur í starfi sjómannsins og maður lærir fljótt að bera virðingu fyrir henni.“ Þá segir Kristján einnig að um borð í fiskiskipi sé að finna mikla samheldni og liðsheild. „Það sem er sérstakt við sjómennsku er að það er einhver vitund um það í hverju skipi að áhöfnin verður að vinna saman til þess að árangurinn af starfinu verði sem mestur.“
Eins og flestum er orðið kunnugt mun Kristján láta af störfum í haust, en hann tilkynnti í mars að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í komandi alþingiskosningum. Víða er fólk að spá hvað kunni að taka við er Kristján hverfur af þingi, sjálfur kveðst hann ekki hafa gert upp hug sinn og er því blaðamaður knúinn til að nota útilokunaraðferðina og spyrja hvort komi til greina að snúa aftur á sjó.
„Það getur vel verið. Ég er ekki með nein plön um það. Það eina sem ég er búinn að ákveða með sjálfum mér er að ráða dagskrá morgundagsins sem ég hef ekki gert í langan tíma. Ég er ekki búinn að ákveða neitt en ég mun aldrei útiloka það að fara eitthvað til sjós, en ég myndi ekki gera það af sama krafti og í fyrri tíð.“
En heilla kannski strandveiðar?
„Strandveiðar eru hörkuvinna. Þetta er ekki alltaf sól og sléttur sjór. Strandveiðar eru puð ef menn ætla að hafa af þeim almennilega afkomu. En á trillu í fallegri sumarnótt; það er fátt fallegra og betra.“
Í þjóðfélagsumræðunni um sjávarútveg hefur undanfarin tæp tvö ár verið efst á baugi, mál Samherja; framganga fyrirtækisins í Namibíu sem og hér á landi. Kristján hefur ekki einungis verið ráðherra sjávarútvegsmála á þessum tíma heldur hefur sjálfur setið undir ásökunum og gagnrýni.
Spurður hvernig staða mála og umræðan blasi við sér svarar Kristján: „Það er ákaflega dapurt, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að horfa upp á þessa stöðu sem hefur byggst upp í kringum þetta ágæta fyrirtæki. Ég sagði það strax þegar þetta mál hófst að forsvarsmenn þess yrðu að ganga fram fyrir skjöldu og greina þessa stöðu og gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég held að flestir sem fylgjast með þessari umræðu geti verið sammála um að það hafi fyrirtækinu ekki tekist enn þann dag í dag.“
„Ég hef í þessari umræðu verið samsamaður viðbrögðum fyrirtækisins við þessu máli. Í pólitík er ekkert spurt um hvort það sé sanngjarnt eða ekki, en ég hef frá fyrsta degi lagt mig fram um að svara þeim spurningum sem að mér hefur verið beint. Þau svör hafa meira snert fyrri aðkomu mína að fyrirtækinu, þá helst þá staðreynd að ég sat þarna í stjórn fyrir rúmlega tveimur áratugum, en ekki þær ásakanir sem hafa komið fram á hendur fyrirtækinu enda þekki ég þau mál ekki neitt.“
Ráðherrann segir sér þykja vont hvernig umræðan um Samherja smitar út frá sér og hefur áhrif á heila atvinnugrein. „Eins frábærum árangri og íslenskur sjávarútvegur hefur náð á undanförnum árum og áratugum, þá felur þessi staða í sér að hún veikir tiltrú fólks til sjávarútvegsins sem er mjög slæmt.“
Eins og fyrr segir hóf Kristján stjórnmálaferilinn 1986 og hefur gegnt opinberum embættum í 35 ár. Má í því samhengi nefna starf bæjarstjóra á Dalvík, Ísafirði og Akureyri auk þess sem hann hefur verið ráðherra menntamála, heilbrigðismála og sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.
„Það sem mér finnst standa upp úr er að hafa fengið tækifæri til að vinna með mörgu góðu fólki og kynnast enn fleira fólki, viðhorfum þess og að vinna fyrir það. Það er alltaf erfitt að leggja dóm á eigin verk og betra að annað fólk leggi mat á það. Það eru orðin, eðli málsins samkvæmt, mörg verkefni sem ég hef komið að þar sem ég hef unnið með það sem meginmarkmið að bæta íslenskt þjóðfélag, bæta lífsgæði Íslendinga, hvort sem það er í sveitarfélögum eða á landsvísu. Þannig að ég mun ganga þakklátur og stoltur af mínum verkum frá borði þegar að því kemur,“ segir Kristján að lokum.
Viðtalið var fyrst birt í sérblaði 200 mílna sem fylgdi Morgblaðinu 5. júní í tilefni af sjómannadeginum.