Fjöldi verðmætra fyrirtækja hefur orðið til innan Sjávarklasans eða í tengslum við hann. Þór Sigfússon segir sóknarfæri framtíðarinnar m.a. á sviði nýrra orkugjafa, þara- og smáþörungaræktar og sölu á ráðgjöf til annarra landa.
Hinn 24. maí síðastliðinn var haldið upp á 10 ára afmæli Sjávarklasans. Allt frá stofnun hefur Sjávarklasinn iðað af lífi og verið miðpunktur nýsköpunar í íslenskum sjávarútvegi. Ófá sprotafyrirtæki sem stígu sín fyrstu skref í Húsi Sjávarklasans úti á Grandagarði eru í dag orðin stöndug og verðmæt félög með viðskiptavini um allan heim.
Þór, stofnandi Sjávarklasans, er að vonum ánægður með árangurinn: „Þegar við byrjuðum hafði ég enga hugmynd um hvar við myndum vera stödd að tíu árum liðnum, en ég var hins vegar sannfærður um að miklir möguleikar væru til staðar í haftengdri nýsköpun,“ segir hann.
Það er til marks um áhrif Sjávarklasans að þegar verkefnið var sett á laggirnar mátti finna á Íslandi um 60 sprotafyrirtæki tengd bláa hagkerfinu. Í dag eru þau um 150 talsins og þau sem ekki hafa beinlínis orðið til úti á Grandagarði hafa haft einhverja tengingu við Sjávarklasann. „Við reyndum að reikna hversu miklu fjármagni félögunum í Húsi Sjávarklasans hefur tekist að afla sér og við hættum að telja þegar við vorum komin upp í fimm milljarða,“ segir Þór. „Þá sýndi könnun sem við gerðum að mikil samvinna hefur átt sér stað í Húsi Sjávarklasans og að sjö af hverjum 10 frumkvöðlafyrirtækjum sem hafa haft hér starfsemi í skemmri eða lengri tíma áttu í samstarfi við a.m.k. eitt annað fyrirtæki í húsinu. Er þetta skýr vísbending um að hugmyndin að baki klasanum virkar eins og vonast var til.“
Þór bætir við að sprotarnir sem hafa tekið þátt í starfi Sjávarklasans hafi reynst óvenjuþrautseigir. „Það hlutfall sprotaverkefna sem komist hefur á legg er töluvert hærra en í mörgum öðrum geirum og skýrist væntanlega af því að þau snúast um rekstur í raunhagkerfinu frekar en t.d. starsfemi í sýndarheimum. Það virðist minni hætta á að sprotafyrirtæki lifi ekki af ef þau vinna að verðmætasköpun tengdri hafinu.“
Velgengni Íslenska sjávarklasans hefur vakið athygli á heimsvísu og orðið öðrum innblástur til að setja sams konar sprota- og nýsköpunarsetur á laggirnar. „Í dag erum við með fimm systurklasa í Bandaríkjunum. Þá hafa Færeyingar líka sett sjávarklasa á laggirnar, og einnig er hægt að finna nýja sjávarklasa víðs vegar í Suður-Ameríku, í Kanada og á eyjum í Kyrrahafinu sem við höfum tengst og aðstoðað. Útbreiðsla sjávarklasamódelsins er rétt að byrja og við finnum fyrir gríðarlegum áhuga á þeim aðferðum sem við höfum beitt,“ segir Þór.
Sjávarklasinn hóf fyrir um átta árum að kynna Ísland sem það land sem nýtir meiri hliðarafurðir en nokkurt annað samanburðartækt land. Klasinn nefndi þetta átak „100% landið“ sem vísaði í að mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki stefna að fullri nýtingu alls þess afla sem kemur á land. „Þetta hefur vakið mikla athygli“, segir Þór. „Við erum núna að veita ráðgjöf bæði í Bandaríkjunum og á Kyrrahafseyjunum varðandi fullnýtingu og nýtum okkur þá öflugt net samstarfsfyrirtækja á borð við Matís og tæknifyrirtækin hér heima í því sambandi.“
Í nýrri greiningu Sjávarklasans um vinnslu hliðarafurða hérlendis kom í ljós að á árunum 2012-2019 jókst velta fyrirtækja, sem aðallega vinna með hliðarafurðir af ýmsu tagi, um 32%. „Við höfum náð upplýsingum frá bróðurparti þessara fyrirtækja en enn er verk að vinna að ná öllum tölum í hús. Við erum ánægð að sjá þennan vöxt í framleiðslu á vörum hér heima sem víðast hvar í heiminum eru nýttar sem landfylling eða hent í sjóinn,“ segir Þór.
Ljóst er að íslenska hagkerfið á mikið að þakka verðmætasköpun nýsköpunarfyrirtækja í bláa hagkerfinu, og einnig er það víst að ballið er rétt að byrja. Þór segir velgengni sjávarútvegsins ekki síst koma til af því að nýsköpun hefur spilað stóran þátt í viðskiptum og rótgrónari fyrirtækin í geininni lagt sig fram við að fjárfesta í og styðja við bakið á sprotunum: „Það er ekki sjálfgefið hvernig þær lausnir, hugvit og fyrirtæki sem orðið hafa til hafa haldist hér á landi frekar en að vera seldar til annarra landa. Allt of oft eru það örlög íslenskra nýsköpunarfyrirtækja að hverfa út í heim,“ segir Þór. „Við verðum að reyna að halda sem mest í að höfuðstöðvar þessara fyrirtækja verði hérlendis þótt við sækjum fjárfesta og þekkingu til annarra landa.“
Ef fram heldur sem horfir mun það gerast einn góðan veðurdag að meiri verðmætasköpun verður hjá nýsköpunarfyrirtækjunum en hjá hefðbundnu sjávarútvegsfyrirtækjunum: að útflutningsverðmæti kröftugra ensíma, fullkomins vinnslubúnaðar, fæðubótarefna og lækningavara úr fiskafurðum verður meira en útflutningsverðmæti fisksins sem seldur er til stórmarkaða og veitingastaða: „Náttúrulegum, hreinum og sjálfbærum uppsprettum prótíns hefur ekki fjölgað en með nýsköpuninni tekst að gera þessa auðlind æ verðmætari. Er t.d. lyfjageirinn og allur heilsugeirinn að átta sig æ betur á því hve áhugaverðir möguleikar eru innan seilingar.“
Aðspurður um tækifæri og áskoranir næstu tíu ára segir Þór að hann reikni með að sjálfbærni og umhverfisáhrif verði mál málanna í sjávarútveginum. Á Íslandi og öðrum löndum muni greinin keppast við að lágmarka kolefnisspor sjávarafurða, nýta nýja orkugjafa og gera veiðarfæri umhverfisvænni. „Ég vil að Ísland verði líka í forystu á heimsvísu í fullvinslu á eldisfiski en sú afurð er í dag að langmestu leyti seld óunnin úr landi. Við erum líka rétt að byrja að nýta skóg hafsins, þótt við séum þegar með fleiri frumkvöðlafyrirtæki á sviði þara- og smáþörungaræktunar en nokkur önnur af þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir Þór. „Síðast en ekki síst tel ég mikil tækifæri í sölu á íslenskri þekkingu og ráðgjöf til annarra landa.“
Til að greiða leiðina fyrir vöxt og nýsköpun segir Þór að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að halda áfram að stækka og verða enn öflugri. Eins og lesendur vita eru stærð fyrirtækja í greininni settar ákveðnar skorður með reglum sem setja þak á kvótaeign félaga. „Ein leið í kringum þá reglu gæti verið að leyfa sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru almenningshlutafélög að eiga stærra hlutfall af kvótanum,“ segir Þór.
„Stærri rekstrareiningar eru betur í stakk búnar til að sækja á erlenda markaði og skapa meiri verðmæti úr þeirri þekkingu og markaðstengslum sem þegar eru fyrir hendi. Við þetta myndi grunnstoðin styrkjast og möguleikar nýsköpunarfyrirtækjanna um leið.“