Björgunarafrekið við Látrabjarg, heimildarmynd Óskars Gíslasonar sem sýnd var á RÚV fyrr í mánuðinum, var endurgerð á þýskri útgáfu myndarinnar. Hún er 40 mínútum styttri en frumgerðin. Í þeirri útgáfu sem RÚV sýndi var meinleg villa sem glöggir áhorfendur tóku eftir. Kvikmyndasafn Íslands hefur gert ráðstafanir til að þess sé getið í upphafi myndar hvaða útgáfa þetta er og að villa hafi slæðst inn í hljóðrásina.
Félagar úr björgunarsveitinni Bræðabandinu og fleiri heimamenn í Rauðasandshreppi unnu mikið afrek þegar þeir björguðu skipbrotsmönnum af breska togaranum Dhoon sem strandaði við Látrabjarg 12. desember 1947. Þurftu þeir að síga niður í bjargið við hættulegar aðstæður. Tókst að bjarga tólf skipverjum en þrír höfðu drukknað áður en björgunarmenn komust í færi við skipið.
Segja má að Óskar Gíslason kvikmyndagerðarmaður hafi einnig unnið mikið afrek með gerð heimildarmyndar um björgunina. Óskar fór með samstarfsmanni sínum, Þorleifi Þorleifssyni, vestur tæpu ári eftir strandið og byrjaði að mynda. Sviðsetningin fór meðal annars fram í Kollsvík í vondu veðri og þar léku björgunarmennirnir sjálfa sig. Á meðan tökur stóðu yfir bárust boð um að breski togarinn Sargon hefði strandað í óveðri undir Hafnarmúla í Örlygshöfn. Tóku kvikmyndatökumennirnir upp tæki sín og hröðuðu sér á slysstað í Patreksfirði og mynduðu björgun þeirra sex skipverja sem tókst að bjarga en áður höfðu ellefu farist. Í báðum tilvikum skutu björgunarmenn línu út í togarana og drógu skipbrotsmenn í land, við hinar verstu aðstæður.
Notaði Óskar myndirnar af björgun skipverjanna af Sargon í heimildarmyndina um Dhoon. Við það fékk myndin raunveruleikablæ enda var hún að hluta til fréttamynd þar sem björgunarmenn berjast fyrir því að bjarga þeim skipverjum sem á lífi voru í land og síðan til byggða. Greinilega sést í myndinni hvað skipbrotsmenn voru langt leiddir.
Óskar Gíslason gaf myndina út strax árið eftir. Hún vakti mikla athygli og var sýnd um allt land. Þá fékk hún dreifingu víða erlendis, meðal annars í Þýskalandi, Færeyjum og Noregi. Ensk útgáfa hennar hefur væntanlega verið sýnd í Englandi og víðar.
Heimildarmyndin var tekin á 16 millimetra filmu og er varðveitt í Kvikmyndasafni Íslands. Þar er önnur útgáfa þar sem búið er að skeyta við myndskeiði frá athöfn þar sem Englendingar heiðra björgunarmenn. Á safninu er einnig varðveitt þýsk útgáfa myndarinnar sem hafði verið gefin út á 35 millimetra filmu, með þýsku, ensku og íslensku tali. Hún er innan við 50 mínútur að lengd en upphafleg mynd Óskars var um 90 mínútur. Líklega hefur hún verið fyrst sýnd árið 1958. Björn Sv. Björnsson, sonur Sveins Björnssonar forseta, var fenginn til að gera íslenskt tal við hana úti í Þýskalandi og las hann textann en Þórður Jónsson á Hvallátrum, formaður björgunarsveitarinnar, skrifaði textann við upphaflegu myndina og las hann inn.
Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur varðveislu og rannsókna hjá Kvikmyndasafni Íslands, segir að myndin hafi fengið stöðu sem gæðamynd í Þýskalandi og verið sýnd mikið þar, meðal annars sem kennsluefni í skólum í mörg ár. Sú útgáfa var sömuleiðis sýnd í öðrum þýskumælandi löndum. Mun þetta allt hafa verið á vegum Sjóbjörgunarfélags Vestur-Þýskalands. Gunnar segir að þýsku útgáfunni hafi einnig verið hampað í fjölmiðlum hér á landi, þegar hún barst hingað til lands, og verið talin þéttari og betri en upphaflega útgáfan. Slysavarnafélag Íslands fékk nokkur eintök frá systurfélagi sínu í Þýskalandi og sýndi víða. Ekki kveðst Gunnar vita hvernig Óskar Gíslason kom að þeirri útgáfu.
Spurð af hverju Kvikmyndasafnið ákvað að endurgera þýska útgáfu myndarinnar frekar en þá upprunalegu segir Steinþóra Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafni Íslands, að þýska útgáfan hafi verið á 35 millimetra filmu og mun betur farin en sú upphaflega. Hafi þótt meira spennandi að gera hana upp. Steinþóra segir að fólk geti haft mismunandi skoðanir á þeirri ákvörðun og gagnrýnt hana.
Í þýsku útgáfunni með íslenska talinu kemur fram að Sargon hafi strandað á nákvæmlega sama stað og Dhoon. Það er vitaskuld rangt og nokkuð langt á milli Látrabjargs og Hafnarmúla inni í Patreksfirði.
Gunnar segist ekki vita um ástæður þessa. Íslenska hljóðrásin hafi verið unnin úti í Þýskalandi og telur hann líklegast að textinn hafi verið þýddur úr þeim þýska sem kunni að hafa verið ónákvæmur um þetta atriði.
Steinþóra segir að Kvikmyndasafnið hafi nú gert ráðstafnir til að gerði verði skýringartexti framan við útgáfuna sem RÚV er með þar sem fram komi að þetta sé stytt útgáfa af myndinni og að umrædd villa hafi slæðst inn í talið.