Gagnrýni LS á starfsháttum Hafró vísað á bug

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir eðlilegar skýringar á því …
Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir eðlilegar skýringar á því að þorskstofninn hafi verið ofmetinn og að stofnunin styðjist við alþjóðlega viðurkenndar aðferðir í rannsóknum sínum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Margir lýstu vonbrigðum sínum og undrun þegar fram kom í kynningu Hafrannsóknastofnunar vegna ráðgjafar um hámarksafla fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 að viðmiðunarstofn þorsks hafi reynst minni en áður var talið. Fram kom að stofninn hefði verið ofmetinn undanfarin ár og að hann hafi í fyrra verið talinn 1.208 þúsund tonn en reyndist hafa verið 982 þúsund tonn og sé í ár 941 þúsund tonn.

„Ofmatið á stærð þorskstofnsins er tilkomið vegna breytinga sem gerðar voru á líkaninu sem notað er til að meta stærð stofnsins,“ svarar Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, er hann er spurður hvað skýri ofmatið. „Á undanförnum árum hefur aldurssamsetning stofnsins gjörbreyst vegna lækkaðs veiðihlutfalls. Það veldur því að nú eru hlutfallslega mun fleiri þorskar 8 ára og eldri í stofninum en áður, en jafnframt að 10 til 14 ára þorskar sem voru mjög sjaldgæfir í stofninum áður fást nú í auknu mæli í stofnmælingum botnfiska (ralli).“

„Eftir því sem árunum hefur fjölgað þar sem mikið er af eldri fiski hefur komið í ljós að samband milli fjölda í stofni og í stofnmælingu er ekki línulegt eins og áður var talið hjá eldri fiski heldur eykst vísitala hlutfallslega hraðar en fjöldi í stofni. Þetta ásamt því að upplýsingar um nýliðun í stofnmælingu að haustlagi bentu til mun sterkari nýliðunar en raunin varð gerir það að verkum að stofnmöt síðustu ára hafa ofmetið stærð þorskstofnsins miðað við núverandi stofnmat,“ útskýrir hann.

Mynd/mbl.is

Ekki séríslenskt

Það er hins vegar ekki bara umhverfis Ísland sem þorskstofninn hefur verið ofmetinn og ráðlagði Alþjóðahafrannsóknastofnunin (ICES) að veiðar á þorski í Barentshafi yrðu 177 þúsund tonnum minni á næsta ári sem er 20% lækkun, sú ráðgjöf hefði verið 43% minni ef ekki væri fyrir ákvæði um hámarksbreytingar milli ára. Gat norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, upplýst að þorskstofninn í Barentshafi hafi verið ofmetinn undanfarin ár.

Spurður hvort ofmatið í Barentshafi eigi eitthvað sameiginlegt við ofmatið hér á landi svarar Guðmundur því játandi. „Þær breytingar sem gerðar voru á stofnmatinu í ár eru um margt svipaðar og gert var fyrir barentshafsþorskinn í ár. Þar, líkt og hér, hefur tekist að draga verulega úr sókn með sömu afleiðingum, að eldri fiski fjölgar og þær forsendur sem áður voru gefnar um samband vísitalna og stofnstærðar standast ekki lengur og þarf því að uppfæra í ljósi nýrra gagna.“

„Ofmat og vanmat á fiskistofnum er hluti af þeirri óvissu sem við er að eiga um mat á stærð og afrakstursgetu villtra stofna og hefur sést í mörgum öðrum stofnum eins og í ufsa, gullkarfa og skarkola. Við höfum hins vegar vanist því á undanförnum árum að stofnmat þorsks hefur ekki haft mikil frávik milli ára fyrr en í fyrra og svo aftur í ár. Rétt er að halda því til haga að við mat á nýtingarstefnu þorsks [aflareglu] er gert ráð fyrir að slíkt endurmat geti orðið öðru hvoru.“

Viðurkennd aðferðarfræði

Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur sakað Hafrannsóknastofnun um að styðjast við ótrúverðuga starfshætti og talið ástæðu til að fá utanaðkomandi aðila til að skoða aðferðafræði stofnunarinnar. „Hafrannsóknastofnun beitir í grunninn sömu aðferðafræði og notast er við alls staðar í heiminum þar sem byggt er á vísindum við stjórn fiskveiða,“ segir Guðmundur, inntur álits á gagnrýni LS.

„Nú er nýlokið endurskoðun á aflareglu þorsks á vegum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði. Í nefndinni sátu fulltrúar ráðuneytis, hagsmunaaðila, Hafrannsóknastofnunar og vísindasamfélagsins, þ.e. Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Niðurstaða nefndarinnar var að mæla með óbreyttri aflareglu. Í kjölfarið óskaði ráðuneytið eftir að Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) færi yfir aflaregluna og aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar á mati á stærð þorskstofnsins,“ útskýrir hann.

„Niðurstaða ICES var að aflareglan stæðist alþjóðlegar kröfur um sjálfbærni og leiddi til hámarksafraksturs til lengri tíma litið. Í kjölfar endurskoðunar aflareglu fóru erlendir sérfræðingar yfir aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við mat á stofnstærð þorskstofnsins á vettfangi ICES. Ráðgjafanefnd ICES (ACOM) féllst á niðurstöður þessara sérfræðinga og því byggir ICES ráðgjöf sína á sömu aðferðafræði og Hafrannsóknastofnun. Aðferðafræðin er í grunninn sú sama og beitt er bæði í Evrópu og Norður-Ameríku (Kanada/USA) sem og alls staðar þar sem ráðgjöf byggir á vísindalegri nálgun.“

Löndun úr Sturla GK. Sjávarútvegurinn mun hafa minni veiðiheimildir í …
Löndun úr Sturla GK. Sjávarútvegurinn mun hafa minni veiðiheimildir í þorski næstu árin. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Önnur gagnrýni sem oft heyrist er að togararallið nái ekki utan um þorskstofninn, því er til að svara að rallið byggir á viðurkenndri aðferðafræði sem notuð er alls staðar við mat á stofnstærð þorsks eins og í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og fleiri löndum. Hafrannsóknastofnun fylgist vel með rannsóknum á slíkri aðferðafræði en enn sem komið er hefur ekki verið sýnt fram á betri aðferðir til að meta stærð bolfiskstofna á vísindalegan og samræmdan hátt.“

Komið hefur fram sú gagnrýni að þrátt fyrir að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hafi verið fylgt er þorskstofninn ekki að gefa meira af sér en þegar kvótakerfinu var komið á 1984. Er eitthvað til í þessu?

„Það er rétt að afli er nú mun lægri en þegar veiðar voru óheftar, það hins vegar þarf að halda því til haga að ekki er dregið verulega úr þorskafla fyrr en aflareglan kemur fram um miðjan tíunda áratuginn. Ef litið er á stofnþróun frá lokum sjötta áratugarins til þess tíunda sést að viðmiðunarstofninn fór úr um 1.800 þúsund tonnum í um 600 þúsund tonn. Veiðar á þessum tíma voru því langt umfram afrakstursgetu stofnsins. Það sem hins vegar flækir málið er að framan af komu göngur frá Grænlandi inn á Íslandsmið sem héldu uppi afla hér við land. Þorskstofninn við Grænland hrundi á áttunda áratugnum og síðan hafa ekki komið stórar göngur þaðan inn í íslenska stofninn.“

Þarfnast skoðunar

Guðmundur segir stofnunina ekki gera ráð fyrir að viðmiðunarstofn þorsks stækki á ný fyrr en stærri árgangar koma inn í stofninn. „Það eru ágætar horfur með 2019 og 2020 árganginn sem koma þá inn í viðmiðunarstofninn 2023 og 2024. Horfur fyrir næsta ár eru að stofninn minnki lítillega þar sem lélegir árgangar frá 2013 og 2016 vega enn mikið í viðmiðunarstofni.“

Það sé enn margt á huldu varðandi þorskstofninn að sögn Guðmundar og þörf á að rannsaka betur marga þætti í líffræði og vistfræði hans. „Afdrif ungviðis þorsks eru lítt rannsökuð, tengsl þorsks hér og við Grænland þarfnast skoðunar sem og far hans um hafsvæðið við Ísland. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á mismunandi atferli þorsks, sk. djúpfars og grunnfars, en hvernig hlutföll þessara atferlisgerða hafa áhrif á afrakstursgetu þorsks er lítt skoðað. Það er því margt sem er óþekkt í tengslum við þorskinn en öll slík vitneskja mun nýtast við að geta betur metið stærð og afrakstursgetu þessa langmikilvægasta nytjastofns okkar,“ útskýrir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 20.1.25 612,94 kr/kg
Þorskur, slægður 20.1.25 694,78 kr/kg
Ýsa, óslægð 20.1.25 413,58 kr/kg
Ýsa, slægð 20.1.25 287,52 kr/kg
Ufsi, óslægður 20.1.25 286,49 kr/kg
Ufsi, slægður 20.1.25 251,32 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 20.1.25 234,81 kr/kg

Fleiri tegundir »

20.1.25 Kristján HF 100 Lína
Þorskur 7.579 kg
Ýsa 3.346 kg
Samtals 10.925 kg
20.1.25 Fjølnir GK 757 Lína
Þorskur 7.098 kg
Ýsa 2.880 kg
Langa 582 kg
Samtals 10.560 kg
20.1.25 Fjóla SH 7 Plógur
Ígulker Bf B 1.020 kg
Samtals 1.020 kg
20.1.25 Bergur VE 44 Botnvarpa
Þorskur 39.967 kg
Ýsa 11.514 kg
Ufsi 4.916 kg
Karfi 3.517 kg
Samtals 59.914 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 20.1.25 612,94 kr/kg
Þorskur, slægður 20.1.25 694,78 kr/kg
Ýsa, óslægð 20.1.25 413,58 kr/kg
Ýsa, slægð 20.1.25 287,52 kr/kg
Ufsi, óslægður 20.1.25 286,49 kr/kg
Ufsi, slægður 20.1.25 251,32 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.7.23 10,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 14.1.25 21,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 20.1.25 234,81 kr/kg

Fleiri tegundir »

20.1.25 Kristján HF 100 Lína
Þorskur 7.579 kg
Ýsa 3.346 kg
Samtals 10.925 kg
20.1.25 Fjølnir GK 757 Lína
Þorskur 7.098 kg
Ýsa 2.880 kg
Langa 582 kg
Samtals 10.560 kg
20.1.25 Fjóla SH 7 Plógur
Ígulker Bf B 1.020 kg
Samtals 1.020 kg
20.1.25 Bergur VE 44 Botnvarpa
Þorskur 39.967 kg
Ýsa 11.514 kg
Ufsi 4.916 kg
Karfi 3.517 kg
Samtals 59.914 kg

Skoða allar landanir »