Í íslenska flotanum er aðeins eitt olíuskip, Keilir. Skipið kom til landsins í febrúar 2019 og hefur síðan siglt á hafnir landsins með olíu og bensín. Keilir tekur 750 þúsund lítra í hverri ferð og því er óhætt að segja að hann hafi sparað mikið slit á þjóðvegum landsins á þeim tíma sem hann hefur þjónað Íslendingum. Ef Keilis nyti ekki við hefði þurft að flytja alla olíu með olíubílum.
Keilir er 496 brúttótonn, 46 metra langur og tæplega 10 metrar á breidd. Skipið siglir til Ólafsvíkur, Grundarfjarðar, Patreksfjarðar, Ísafjarðar, Vopnafjarðar, Þórshafnar, Hafnar í Hornafirði og Vestmannaeyja, að viðbættum fleiri höfnum þegar aðstæður kalla eftir því. Jafnframt afgreiðir Keilir eldsneyti til skemmtiferðaskipa, fiskiskipa og flutningaskipa.
Áhafnarlisti Keilis: Ómar Norðdal skipstjóri, Einar Ó. Magnússon (skipstjóri á móti Ómari), Hlynur Örn Sigurðsson, Birgir Axelsson,
Þorsteinn Baldvinsson og Ríkharður Bjartur Freysteinsson auk afleysingamanna á sumrin.
Keilir er með átta aðskilda geyma og sérdælukerfi og hitunarbúnað fyrir hvern geymi. „Þetta eykur allt öryggi með meðhöndlun eldsneytis og gefur möguleika á að flytja mismunandi tegundir samtímis án þess að skapa hættu á blöndun. Keilir getur einnig flutt og afgreitt bensín sem er sérkrafa frá okkur en ekki algilt að jafn lítil skip séu þannig útbúin,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, eiganda skipsins.
Meginstarfsemi Olíudreifingar er dreifing og birgðahald á fljótandi eldsneyti fyrir eigendur sína N1 hf. og Olíuverslun Íslands hf., og eru aðalstöðvar þess við Hólmaslóð í Örfirisey í Reykjavík. Þar eru birgðatankar félagsins og olíuskipin eru afgreidd við Eyjagarð.
Það var hinn 12. febrúar 2019 að hið nýja skip Olíudreifingar kom til hafnar í Reykjavík eftir 4.200 sjómílna siglingu heim frá Adana í Tyrklandi, þar sem skipið var smíðað í Akdeniz-skipamsíðastöðinni. Skipinu var gefið nafnið Keilir, sem er nafn í eigu Olíudreifingar og skip félagsins, sem smíðað var í Kína 2002, bar. Keilir leysti af hólmi mt. Laugarnes sem verið hafði í eigu Olíudreifingar frá 1998.
Samningur um smíði nýs skips var undirritaður í Reykjavík 16. janúar 2018 og er skipið smíðað samkvæmt hönnun skipasmíðastöðvarinnar en Keilir er fimmta skipið sem smíðað er samkvæmt þessari sömu teikningu. Keilir er jafnframt fjórða tankskipið sem smíðað er fyrir íslenska útgerð. Áður höfðu Stapafell I og Stapafell ll verið smíðuð fyrir Olíufélagið og Skipadeild Sambandsins á árunum 1962 og 1979 og siðan fyrri Keilir fyrir Olíudreifingu í Shanghai árið 2002. Samtals hafa ellefu olíuflutningaskip verið í eigu Íslendinga og eru þá undanskildir bátar.
Það hafði legið fyrir í nokkur ár að endurnýja þyrfti Laugarnesið, segir Hörður. Laugarnesið, sem er smíðað 1978, var komið á mikið viðhaldsstig auk þess að vera í raun vanbúið í það mikilvæga verkefni sem eldsneytisflutningar með ströndum landsins krefjast.
Því var ákveðið að leita að skipasmíðastöð sem gæti smíðað nýtt skip frá grunni þar sem tekið væri tillit til sérþarfa fyrir íslenskar aðstæður.
„Skipamsíðastöðin Akdeniz í Adana í Tyrklandi var strax ofarlega á blaði, ekki síst vegna þess að við höfðum skoðað skip Malik Supply í Danmörku sem smíðað var hjá þeim sem og að við höfum fylgst með smíði sams konar skips og Keilir hjá Akdeniz fyrir norska fyrirtækið Bunker Oil. Eftir að fyrir lágu tilboð frá öðrum stöðvum var ljóst að þetta væri besti kosturinn í stöðunni. Við leituðum því tilboða hjá Akdeniz í smíði nýs skips þar sem tekið var tillit til allra sérþarfa okkar, s.s. að geta flutt allar tegundir skipaeldsneytis sem hér eru á markaði að viðbættu bensíni og JET A1,“ segir Hörður.
Hann tekur fram að samskiptin við Akdeniz-skipasmíðastöðina hafi allan tímann verið mjög góð. Tímaáætlanir stóðust með ágætum og ekki leið nema um ár frá því að skrifað var undir samninginn og þar til skipið var afhent til heimferðar
Keilir er smíðaður samkvæmt hönnun skipasmíðastöðvarinnar með smávægilegum breytingum og viðbótum af hálfu Olíudreifingar.
„Keilir er vel búið skip, hannað fyrir íslenskar og norðlægar aðstæður þar sem tekið er fullt tillit til þarfa okkar. Við hönnun Keilis er litið til framfara í öryggismálum sem felast í því að í skipinu eru tvær aðalvélar með tveimur stýrum og tveimur skrúfum auk þess sem botn og byrðingur eru tvöfaldir. Allt eru þetta atriði sem eru mikil framfaraskref frá fyrra skipi svo ekki sé minnst á stóraukna afkastagetu sem sjá má í stórauknum ganghraða ásamt auknum dæluafköstum og burðargetu,“ segir Hörður að lokum. Til að auka sjóhæfnina enn frekar er áformað að setja veltitanka í skipið við næstu slipptöku.
Sem fyrr segir tók Keilir við hlutverki Laugarnessins sem olíuskip Olíudreifingar, en Laugarnesið er enn í íslenska flotanum. Sjótækni ehf. á Tálknafirði keypti skipið og fékk það nafnið Assa BA. Það er notað sem alhliða vinnuskip, svo sem við lagningu sæstrengja, dýpkunarframkvæmdir og önnur verkefni sem til falla. Assa er 315 brúttólesta stálskip, smíðað í Danmörku 1978. Skipið var lengt 1998.