Seiglurnar eru komnar í höfn í Reykjavík eftir hringferð sína umhverfis Ísland á fimmtíu feta seglskútu. Hafnsögubáturinn Magni tók á móti skipinu og sprautaði vatni til að heiðra áhöfn skipsins sem var tilkomumikil sjón.
Skútan Esja kom í höfn um klukkan hálf þrjú í dag eftir að hafa siglt síðasta legginn frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur.
Framtakið hefur vakið nokkra athygli þar sem konurnar sem sigldu með skútunni hafa reglulega sagt frá ferðum sínum á Facebook-síðunni Kvennasigling.
Þrjátíu og sex konur á öllum aldri tóku þátt í siglingunni en markmið verkefnisins var að virkja konur til siglinga, vekja athygli á heilbrigði hafsins og hvetja til ábyrgrar umgengni við hafið og auðlindir þess.
„Vindur í segl er umhverfisvænsti orkugjafinn til að komast frá einum stað til annars. Það þarf kjark og úthald til að sigla við Ísland og við viljum hvetja konur til að takast á við hafið,“ segir á heimasíðu framtaksins.
Ferðin tók um þrjár vikur og var komið við í sjö höfnum. Hægt að var að slást í för með Seiglunum staka leggi siglingarinnar en einnig var föst áhöfn um borð.
Sigríður Ólafsdóttir var skipstjóri á Kríu. Sigríður er með alþjóðleg atvinnuréttindi fyrir skip allt að 45 metrum, vélarvarðarréttindi og með meistarapróf í umhverfis- og auðlindastjórnun þar sem hún hefur sérhæft sig í umhverfisfræðum hafs og strandsvæða.
Mun þetta vera í fyrsta sinn sem áhöfn eingöngu skipuð íslenskum konum siglir í kringum landið á skútu.
Sömuleiðis fóru bátar frá Rafnari bátasmiðju til móts við Esju til að taka á móti konunum.
Í fréttinni var fyrst sagt frá skútunni Kría, en skútan heitir Esja og hefur fréttin verið uppfærð með tilliti til þess.