Farþega- og bílferjan Stena Germanica, í eigu sænska skipafélagsins Stena Line, sigldi í lok júní ferð sína á milli Gautaborgar í Svíþjóð og Kílar í Þýskalandi, knúin vistvænu metanóli.
Var það í fyrsta sinn sem farþega- og bílferja búin hefðbundnum brunavélum sigldi knúin metanóli.
Germanica-ferjan er 240 metra löng, ber 1.300 farþega og 300 bíla. Hún gengur á fjórum aðalvélum sem var breytt árið 2015, þannig að þær geta gengið bæði á metanóli og dísil.
Framleitt úr útblæstri
Metanóleldsneytið sem notast var við í þessari fyrstu siglingu sinnar tegundar var framleitt af íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI) og samstarfsaðilum þess í Svíþjóð úr endurunnum útblæstri frá stáliðjuveri SSAB í Luleå í Norður-Svíþjóð.
Skipstjórnarmenn og fulltrúar Stena Line voru viðstaddir þegar grænu metanóli
frá CRI var dælt á Stena Germanica-ferjuna í höfninni í Gautaborg.
Ljósmynd/Aðsend
Eldsneytið var framleitt með búnaði sem er þróaður, hannaður, uppsettur og rekinn af starfsfólki CRI. Var verkefnið, From residual Steel gases to Methanol sem lauk með siglingu Germanica á metanóli, styrkt af Evrópusambandinu og ætlað að sýna fram á möguleika á notkun gass úr stáliðjuofnum sem vistvæns eldsneytis. Alls lagði Evrópusambandið 1,7 milljarða króna til verkefnisins.
Í dag sigla um tuttugu flutninga- og farþegaskip knúin metanóli ásamt því að mörg skip eru í smíðum og gaf Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) á síðasta ári út nýja staðla um notkun metanóls sem skipaeldsneytis.