Norski laxeldisrisinn SalMar, meirihlutaeigandi Arnarlax, hefur tilkynnt að gert verði tilboð í meirihluta hlutabréfa í Norway Royal Salmon (NRS) sem á meirihluta hlutafjár í Arctic Fish. Gangi þessi áform eftir má gefa sér að vestfirsku fiskeldisfyrirtækin sameinist í eitt í kjölfar sameiningar eignarhalds móðurfélaganna.
Norska fyrirtækið NTS hefur verið að bæta við sig hlutabréfum í NRS og viljað ná meirihluta í fyrirtækinu. Föstudag blandaði SalMar sér í baráttuna og tilkynnti að það myndi gera tilboð í hlutabréf í fyrirtækinu á talsvert hærra verði en NTS býður og miklu hærra verði en hefur verið á markaði á undanförnum vikum. Tilboð SalMar verður háð því að það nái yfirráðum í fyrirtækinu með kaupum á að minnsta kosti helmingi hlutafjár. Hagsmunir síðarnefndu fyrirtækjanna liggja nokkuð saman í starfsemi í Norður-Noregi.
Veruleg samlegðaráhrif
SalMar á meirihluta hlutafjár í Arnarlaxi en NRS á meirihlutann í Arctic Fish. Bæði vestfirsku fiskeldisfyrirtækin eru skráð á hlutabréfamarkaði í kauphöllinni í Ósló í gegnum norsk eignarhaldsfélög. Í tilkynningu SalMar til kauphallarinnar kemur fram að hugsanleg sameining vestfirsku fiskeldisfyrirtækjanna muni hafa veruleg samlegðaráhrif í för með sér og gæti skapað möguleika á frekari uppbyggingu.
Bæði fyrirtækin eru í stækkunarferli. Sem dæmi um samvinnu og samlegð við sameiningu má nefna að öllum laxi beggja félaganna er slátrað hjá Arnarlaxi á Bíldudal en forstjórar fyrirtækjanna hafa verið að leita að nýjum stað til að byggja upp sameiginlegt sláturhús sem gæti tekið við aukningu. Þá eru fyrirtækin með kvíar í sömu fjörðum að hluta og bæði eru með umsóknir um eldisleyfi í Ísafjarðardjúpi.
Tvö í stað fjögurra
Ef þessi kaup ganga eftir og dótturfélögin á Íslandi verða sameinuð munu verða tvö stór fyrirtæki í sjókvíaeldi hér á landi í stað fjögurra því unnið er að sameiningu fyrirtækjanna tveggja á Austfjörðum. Bæði fyrirtækin yrðu að meirihluta í norskri eigu.