Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir að í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi hafi allar upplýsingar verið birtar sem óskað var eftir og heimilt var að birta.
„Málsmeðferð við vinnslu skýrslunnar er ítarlega rakin í upphafi skýrslunnar. Reglulegt samráð var við skrifstofu forseta Alþingis við undirbúning hennar. Ákveðið var að viðhöfðu samráði að skýrslan yrði unnin hjá ársreikningaskrá og tæki til skemmri tíma en horft var til í upphafi. Drög að skýrslunni bárust ráðuneytinu í júlí og var skýrslan send Alþingi 13. ágúst sl.,” segir í tilkynningu.
Þar segir einnig að ekki hafi í skýrslubeiðninni verið óskað eftir upplýsingum um krosseignatengsl. Með því sé átt við kortlagningu eignatengsla líkra eða ólíkra fyrirtækja í eigu sömu aðila. Aðeins hafi verið óskað eftir umsvifum útgerðarfélaganna sjálfra en ekki eigenda þeirra.
„Nokkuð hefur borið á gagnrýni um að skýrslan byggi á bókfærðu virði eigna. Því er til svara að að skýrslubeiðnin er mjög skýr um það að óskað var eftir upplýsingum um bókært virði. Fyrir því voru væntanlega góðar ástæður en í forsendum skýrslunnar er greint frá því aukinheldur að eina færa leiðin fyrir ársreikningaskrá, við vinnslu hennar, var að byggja allar upplýsingar á bókfærðu virði í ársreikningum,” segir einnig í tilkynningunni.
Þar er sömuleiðis nefnt að í skýrslunni sé ekki gefið yfirlit um raunverulega eigendur félaga þar sem ársreikningaskrá hafi talið það vera óheimilt af ástæðum sem er lýst í skýrslunni.
„Þá er rétt að árétta að lög um skráningu raunverulegra eigenda öðluðust gildi um mitt ár 2019 og var aðeins byrjað að safna upplýsingum þá um haustið. Á árunum 2016-2019 var ekki til að dreifa skráningu raunverulegs eigenda í ársreikningum.
Af framangreindu er ljóst að í skýrslunni eru birtar allar þær upplýsingar sem óskað var eftir og heimilt var að birta,” segir í tilkynningunni.