Friðrik G. Halldórsson, hjá Samtökum dragnótamanna, hafnar fullyrðingum smábátamanna um skaðsemi dragnótaveiða í Skjálfandaflóa og segir nýlegar yfirlýsingar samtaka á þeirra á vegum fullar af rangfærslum. Þá séu smábátamenn að fara í manninn fremur en að ræða málefnið.
Snýr málið að því að í síðustu viku sendu smábátafélagið Klettur og Landssamband smábátaeigenda (LS) bréf til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með ósk um að dragnótaveiðarí Skjálfandaflóa yrðu bannaðar. Áður höfðu smábátasjómenn sent sambærilegt bréf til bæjarráðs Norðurþings.
Þá staðhæfðu samtökin á að Hafborg EA sem var að dragnótaveiðum á svæðinu í lok júlí hafi vel getað veitt fjær landi og væri stærð skipsins til marks um það. „Þarna er vakin athygli á að þetta sé 283 brúttótonna bátur. Það er alveg rétt, það þarf ekki annað en að fara í skipaskrá til að sjá það, en Hafbrogin er með skráða lengd 24,95 metrar. Þetta er bara hefðbundin stærða fyrir vertíðarbát. Það sem gerir rúmtöluna svona háa er að þetta er nýtt skip, smíðað 2017, og hann er allur yfirbyggður og inni í því er bara eitthvað sem veitir meiri skjól fyrir mannskap og betri aðbúnað. Þetta nota þeir svo í sínum áróðri,“ útskýrir Friðrik.
„Það er ekki rúmmálið á bátnum sem ræður því hvar hægt er að veiða í dragnót, það er fyrst og fremst botnlagið og dýpið,“ bætir hann við.
LS sendi í ágúst einnig bréf til Landhelgisgæslunnnar þar sem fullyrt er að skipstjóri Hafborgar EA hafi sýnt af sér „vítavert gáleysi“ með veiðum sínum í lok júlí í Skjálfanda þegar hann á að hafa farið of nálægt handfærabátum sem einnig voru á veiðum á svæðinu. Friðrik kveðst ekki geta tjáð sig um þann þátt enda var hann ekki á svæðinum á umræddum tíma.
„En þarna er verið að nota atvik til að styðja málstað. Þeir eru að knýja á um að fá einir rétt til að veiða á ákveðnu svæði. Fyrir mér er það ljóst að þegar þeir hafa ekki málstaðinn með sér fara þeir í manninn.“
Friðrik segir ekkert til í orðum smábátamanna um skaðsemi dragnótaveiða í tengslum við staðbundna bolfiskstofna. „Fiskur hefur ekkert lögheimili. Hann færir sig bara eftir hitastigi og æti.“
Félagsmenn í smábátafélaginu Kletti sögðu í bréfi sínu að steinbítur á grunnslóð suður af Stöðvarfirði hafi verið „þurrkaður upp með dragnót stórskipa frá Hornafirði“. Friðrik kveðst hafa kannað þessi mál. „Það er ekki fótur fyrir þessu. Fyrir tveimur árum voru reglur þannig að landinu var svæðaskipt og Hornfirðingar tilheyrðu suðursvæðinu. Þeir máttu alls ekki vera á Austfjörðum, það var ekki þeirra svæði, og það hefur enginn gert út á dragnót frá Hornafirði eftir að reglurnar breyttust.“ Hann er ekki sáttur við framsetningu málsins af hálfu smábátamanna.
„Þeir hika ekki við að að koma með fullyrðingar og fólk trúir þessu.“
„Svo er fullyrt að dragnótin sópi saman og hirði allt sem á veiðislóðinni er, en aftur á móti að fiskurinn geti valið hvort hann bíti á krókana. Þetta er enn eitt bullið. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar tala um hvað dragnótin hefur góða kjörhæfni. Það þýðir að hún flokkar frá ungviðið. Möskvinn er af ákveðinni stærð þannig að ungviðið sleppur. Því er ekki að heilsa með línuna. Ungviðið gerir engan greinarmun á því hvort það er að bíta í síld af Íslandsmiðum eða beitu frá kyrrahafinu á línunni,“ segir Friðrik.
Hann bendir á að flestar skyndilokanir sem Fiskistofa grípur til m.a. vegna þess að of mikið fiskast af smáfiski séu vegna krókaveiða. „Ég held að það sé bara engin á dragnót undanfarin ár,“ bætir Friðrik við.
Deilan milli dragnótamanna og smábátasjómanna hefur staðið um nokkurt skeið segir Friðrik og kveðst vilja setja hana í sögulegt í samhengi. „Fyrir tíu árum sat ráðherra sem tók ákvarðanir út frá uppdiktuðum ósannindum trillusjómannanna. Þetta blandast því að þeir fara alltaf í sveitarstjórnirnar. Hvers vegna er leitað til sveitarstjórnar? Hún er kosin til að sinna skipulags-, fræðslu- og ummönunarmálum í héraði, þar ekki gerð nein krafa gerð um þekkingu á veiðarfærum. En þegar þú hefur ekki málstað þá leitarðu til sveitarstjórnar því hún kannar engin gögn eða sannleiksgildi heldur fer bara áfram með erindið. Þessi ráðherra sem sat fyrir áratug skýldi sig á bak við vilja sveitarstjórna.“
Ráðherrann sem á eftir kom, Sigurður Ingi Jóhannsson, stofnaði síðan faghóp sem skipaður var sérfræðingum. „Þar fengu hvorki við eða trullusjómenn neina aðkomu þessum faghópi var falið að koma með tillögur um hvernig eigi að veiða á grunnslóð við Ísland,“ segir Friðrik.
„Þessi vinna hélt áfram í gegnum fjóra ráðherra. Sigurður Ingi þurfti að færa sig í forsætisráðuneytið, þá kom Gunnar Bragi Sveinsson. Svo komu kosningfar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir settist í stólinn en sú ríkisstjórn sprakk með látum. Svo kom Kristján Þór Júlíusson og er hann fjórði ráðherrann sem heldur þessu verkefni á faglegu nótunum. Og ég verð að segja það til Kristjáni Þórs til hróss að hann fór að tillögum nefndarinnar og lagaði reglur um dragnótaveiðar.“
Hann telur lítið vera til í því að dragnótabátar gangi frekar á stofna en aðrir. „Það eru um 40 dragnótabátar á landinu og ætli það séu ekki um þúsund trillur. Það að ætla það að dragnótin sé að útrýma einhverjum stofnum – dragnótin veiðir um 4% af þorskinum, 15% af ýsunni en krókarnir eru að veiða miklu meira af þorski og 30% af ýsunni. Þetta er bara gamla sagan sem hefur gengið í 100 ár og þeir eru bara að reyna að koma sér í aðstöðu til að geta einir haft aðgengi að gjöfulum miðum.“
Friðrik kveðst treysta á vísindin er varðar framtíðartilhögun veiða. „Á meðan ráðuneytið vinnur þetta faglega og ráðherra tekur ákvarðanir út frá vísndalegum gögnum höfum við dragnótamenn engar áhyggjur.“