Frumniðurstöður úr loðnuleiðangri fyrr í mánuðinum „sýna að þær væntingar sem voru um veiðar komandi vertíðar munu standast. Því er fyrir séð að Hafrannsóknastofnun mun leggja til aukningu aflamarks þegar útreikningum á stærð veiðistofnsins verður að fullu lokið“, segir í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í gær.
Hver ráðgjöfin verður á að liggja fyrir á föstudag, en ljóst virðist að hún verði umfram þau 400 þúsund tonn, sem miðað var við eftir mælingu á ungloðnu í fyrrahaust. „Þar sem mikil óvissa er um tengsl ungloðnu og veiðistofns ári síðar var um að ræða varfærna ráðgjöf,“ segir í tilkynningu Hafró. Fram hefur komið í Morgunblaðinu að ef ekki væri fyrir varúðarnálgun í gildandi aflareglu hefði upphafskvótinn verið um 700 þúsund tonn.
Ljóst er að vertíðin í vetur getur orðið ein sú stærsta lengi eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Veturinn 2014/15 var ráðgjöf um veiðar alls upp á 580 þúsund tonn, en þá voru veidd 517 þúsund tonn. Heildaraflinn varð 174 þúsund árið á eftir og nálægt 300 þúsund tonnum bæði 2017 og 2018.
Svo kom áfallið og hvorki 2019 né 2020 voru loðnuveiðar leyfðar við landið. Eftir sviptingar í ráðgjöf og loðnuleit síðasta vetur endaði kvótinn í 127.300 tonnum, en upphaflega var reiknað með 170 þúsund tonnum. Á tímabili var þó útlit fyrir að engar loðnuveiðar yrðu leyfðar.
Loðnuveiðar skipta miklu máli fyrir fólk, fyrirtæki, sveitarfélög og þjóðarbúið í heild, en mestu af loðnunni er landað frá Þórshöfn suður um til Vestmannaeyja, en einnig eru loðnuhrogn unnin á Akranesi. Í hlut íslenskra veiðiskipa komu rúmlega 70 þúsund tonn á síðustu vertíð og tókst að hámarka verðmæti úr afurðunum með áherslu á frystingu loðnuhrogna.
Meðal annars vegna banns við loðnuveiðum tvö ár á undan var mikil eftirspurn og hátt verð fékkst fyrir afurðir. Talið er að loðnuvertíðin í vetur hafi alls skilað yfir 20 milljörðum í útflutningsverðmæti, en þá eru meðtalin verðmæti sem sköpuðust við vinnslu á loðnu frá norskum veiðiskipum. Að sama skapi er líklegt að framboð afurða úr meira en 400 þúsund tonnum af hráefni myndi hafa áhrif á manneldismarkaði til verðlækkunar.
Fleiri koma að loðnuveiðum við landið en Íslendingar. Af útgefnum heildarkvóta koma 80% í hlut Íslands, Grænlendingar fá 15% og Norðmenn 5%. Samkvæmt samningi Íslendinga og Færeyinga koma 5% af heildinni í hlut Færeyinga, að hámarki 25.000 tonn, og er sá afli tekinn af hlut Íslands. Smugusamningur Íslendinga og Norðmanna felur síðan í sér að Norðmenn mega veiða hér við land um 30 þúsund tonn af loðnu, sem koma á móti þorskveiðum Íslendinga í Barentshafi.
Í gær hófst einmitt tveggja daga strandríkjafundur Íslendinga, Grænlendinga og Norðmanna um loðnuveiðar og fer fundurinn fram í Reykjavík.
Í sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á norðurslóðir í júlí í sumar mældist mun minna af makríl en síðustu ár. Vísitala lífmassa makríls var metin 5,15 milljónir tonna sem er 58% lækkun frá árinu 2020 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan 2012. Niðurstöður leiðangursins eru, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls.