Nú stendur yfir söfnun gagna um stöðu kvenna í sjávarútvegi og er ætlunin að kortleggja þá stöðu sem nú ríkir og bera saman við niðurstöður sambærilegrar könnunar árið 2017. Könnunin, sem send hefur verið yfir sex hundruð stjórnendum í fyrirtækjum er tengjast sjávarútvegi, er gerð að frumkvæði Félags kvenna í sjávarútvegi (KIS) í samstarfi við Ástu Dís Óladóttur, dósent hjá Háskóla Íslands, og Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
„Við erum að kortleggja stöðu kvenna í sjávarútvegi og kanna hvort störfum kvenna innan greinarinnar sé að fækka eða fjölga. Hvort þau hafi færst til og hvort konum sé að fjölga í stjórnunarstöðum,“ segir Agnes Guðmundsdóttir formaður KIS um könnunina. Hún segir verkefnið lið í að fylgja eftir sambærilegri könnun frá 2017. „Okkur finnst mikilvægt að það séu til töluleg gögn um konur í sjávarútvegi. Þá er líka hægt að sjá frekar hvað þurfi að gera, hvar við þurfum að sækja á.“
Agnes segir þátttöku ágæta í könnuninni borið saman við meðalþátttöku í könnunum almennt. Hins vegar hvetur hún fyrirtæki til þátttöku þar sem það skapi enn betri yfirsýn yfir stöðuna innan greinnarinnar. „Þetta skiptir miklu máli fyrir greinina sjálfa,“ segir hún og bendir á að það sé mikilvægt að athuga hvort konur sem sótt hafa sér menntun á sviði sjávarútvegs skili sér í greinina. Konum hefur fjölgað ört m.a. í námi í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og eru dæmi um að konur séu í meirihluta útskrifaðra árganga.
Stefnt er að því að kynna niðurstöður könnunarinnar á opnunarmálstofu sjávarútvegsráðstefnunnar sem haldin er í nóvember.
Spurð hvort fjölgað hafi í félaginu að undanförnu svarar Agnes því játandi. „Það er alltaf að fjölga konum, en starfið hefur verið rólegra út af Covid enda höfum við ekki getað hitt okkar konur. Starfið hefur færst meira á netið og þá höfum við ekki náð eins mikið til kvenna. Markmiðið með félaginu er að efla tengslanet kvenna, fræða þær og hvetja áfram og þá skiptir máli að geta hitt fólk í eigin persónu.“
Á aðalfundi KIS, sem haldinn var fyrir skömmu, var ný stjórn félagsins kjörin, en hana skipa Agnes, sem er formaður, auk Heiðu Kristínar Helgadóttur hjá Niceland Seafood, Alexöndru Evudóttur hjá Marel, Kötlu Þorsteinsdóttur hjá Samherja, Kristrúnar Auðar Viðarsdóttur hjá Íslandssjóðum, Önnu Bjarkar Theódórsdóttur hjá Oceans of data, Mjallar Guðjónsdóttur hjá Soffaníasi Cecilssyni og Gullu Aradóttur hjá Ice Fish.