Aðalfundi Landssambands smábátaeigenda (LS) lauk í gær og fór fundurinn fram án þess að kom til mikilla deilna eins og á síðasta ári.
Fundurinn hófst föstudag á ræðu Arthurs Bogasonar formanns. Greindi hann frá því að Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefði leitað til sín og spurt hvoprt sambandið gæti fallist á kvótasetningu grásleppu – sem harðar deilur hafa verið um – gegn því að strandveiðisjómenn fái lögfesta 48 veiðidaga.
Þá hafi Arthur borið hugmyndina undir stjórn LS sem vildi frekari skýringar, en er falist var eftir þeim sagði ráðherra þessa hugmynd sína vera pólitískt ómögulega. „Hvert framhaldið verður með nýrri ríkisstjórn veit ég ekkert meir en hver annar í þessum sal,“ sagði Arthur.
Mikill hiti var á aðalfundinum í fyrra vegna ólíkra sjónarmiða er varða kvótasetningu grásleppu. Var í dag lögð fram tillaga þess efnis á ný, en var hún felld eftir umræður fundargesta.
Í ræðu sinni lýsti formaðurinn einnig því að hann telji nauðsynlegt að í umræðunni um umhverfismál verði smábátaútgerðin að verða meiri gildandi. „LS var td frumkvöðull hérlendis í því að draga inn í umræðuna notkun veiðarfæra. Að botndregin veiðarfæri hefðu margföld áhrif í umhverfi hafsins, samanborið við þau kyrrstæðu. Mér er er í fersku minni að þetta taldi hagsmunabatterí stórútgerðarinnar á sínum tíma beinlínis þess vert að gera gys að.“
Arthur hlaut endurkjör sem formaður LS en auk hans var kjörin ný stjórn. Í stjórn LS sitja:
- Andri Viðar Víglundsson frá Ólafsfirði
- Einar Helgason frá Patreksfirði
- Finnur Sveinbjörnsson frá Reykjavík
- Guðbrandur Magnússon frá Garðabæ
- Guðlaugur Birgisson frá Djúpavogi
- Guðni Már Lýðsson frá Skagaströnd
- Halldór Ármannsson frá Njarðvík
- Halldór R. Stefánsson frá Þórshöfn
- Jóhannes Simonsen frá Akranesi
- Karl Heimir Einarsson frá Höfn
- Magnús Jónsson frá Kópavogi
- Már Ólafsson frá Hólmavík
- Ragnar Þór Jóhannsson frá Vestmannaeyjum
- Runólfur Jóhann Kristjánsson frá Grundarfirði
- Stefán Hauksson frá Þorlákshöfn
- Þórður Sigurvinsson frá Ísafirði