Sjávarútvegsskrifstofa matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) kynnti á fundi síðdegis í dag kortlagningu úthlutunar veiðiheimilda til erlendra fiskiskipa í þróunarríkjum. Íslenska ríkið átti frumkvæmi að þessari vinnu og hefur kostað kortlagninguna sem er fyrsti áfangi af fjórum í víðtækri rannsókn á áhrifum veiða erlendra fiskiskipa.
Á fundinum tilkynnti Marcio Castro de Souza, sjávarútvegsfulltrúi FAO, að næsti áfangi verði að fara í efnahagslega greiningu þeirra fyrirkomulaga sem um ræðir. Undirbúingur þeirrar vinnu hefur þegar farið af stað.
Liam Campling, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Queen Mary-háskóla í London, leiddi vinnuna við fyrsta áfanga og kynnti helstu niðurstöður kortlagningarinnar. Útlistaði hann í stuttu máli mismuninn milli þeirrar aðferðarfræði sem Japan, Evrópusambandið, Kína, Taívan, Suður-Kórea, Bandaríkin og Filipseyjar styðjast við til að komast yfir aflaheimildir í þróunarríkjum. Allt eru þetta ríki sem eiga það sameiginlegt að búa yfir stórum skipaflotum sem sækja á erlend fiskimið.
Úttektin sem Campling hefur unnið fyrir FAO er ekki upptalning á samningum um veitingu veiðiheimilda, heldur greining á því hvernig þessir samningar eru: hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað sé ólíkt með þeim, með svæðisbundinni áherslu sem tekur tillit til mismunandi aðstæðna og greining á helstu efnisatriðum fiskveiðisamninga.
FAO hefur talið að mikilvægt væri að fara í þessa kortlagningu þar sem hún hafi ekki legið fyrir, en hún er sögð forsenda fyrir frekari rannsóknir.
„Aukið gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja og samstarf við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru meðal aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Markmið þeirra er að auka traust á íslensku atvinnulífi eftir umfjöllun um viðskiptahætti Samherja í síðustu viku,“ skrifaði Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu 20. nóvember 2019.
Lokið hefur verið við fyrsta áfanga og sagði Stefán Jón Hafstein, sendifulltrúi Íslands í Róm, á fundinum íslensk stjórnvöld styðja franmvindu verkefnisins og vonir eru um að í framtíðinni verði hægt að móta leiðbeinandi reglur um tilhögun úthlutun veiðiheimilda til erlendra skipa í þróunarríkjum.