„Sumarvertíðin hefur gengið mjög vel, það hefur verið stutt stopp á miðunum og síldin er stór og falleg,“ sagði Jón Axelsson, skipstjóri á Sigurði VE-15, stuttu eftir að hann kom í höfn á Þórshöfn með 1.550 tonn af stórri og fallegri síld. Var það síðasta ferð hans til Þórshafnar í bili á þessari vertíð.
Heldur meira þurfti að hafa fyrir makrílveiðunum í sumar, sigling á miðin var löng og makríllinn mjög dreifður og erfiður viðureignar, að sögn áhafnarinnar. Kolmunnaveiðar taka nú við hjá áhöfn Sigurðar, sem sigldi héðan til Vestmannaeyja þar sem skipt var um veiðarfæri.
„Líklega verður þetta bara einn kolmunnatúr og síðan aftur á síldveiðar í byrjun nóvember en þá er það íslenska síldin sem veiðist djúpt vestur af Reykjanesi,“ sagði Jón.
Hann segir margt benda til þess að íslenski síldarstofninn sé að stækka og einnig er norsk-íslenska síldin í nokkuð lengri tíma hér við land en áður fyrr.
Það styttist svo í loðnuvertíðina sem miklar væntingar eru bundnar við.
„Við byrjum líklega loðnuveiðarnar djúpt út af Vestjörðum en á þeim árstíma hefur veðrið mikið að segja því allra veðra er von yfir veturinn. Vonandi verður komin loðna austan við Kolbeinsey eða á Grímseyjarsvæðið í lok nóvember,“ sagði Jón.
Hann hefur alla starfsævi sína verið á sjónum og býr yfir mikilli reynslu. Jón á að baki 21 ár hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og hefur fylgst með breytingum og þróun í gegnum tíðina. Á Sigurði VE-15 eru tveir skipstjórar en á móti Jóni er Hörður Már Guðmundsson sem einnig er mikill reynslubolti.
Miklar breytingar hafa átt sér stað í sjávarútvegi gegnum tíðina.
„Skipin stækka og allur aðbúnaður hefur batnað. Sigurður VE-15 er útbúinn öllum fullkomnasta búnaði sem völ er á svo skipið fer mjög vel bæði með mannskapinn og aflann, einnig er stóraukinn tækni- og vélbúnaður að öllu leyti um borð,“ sagði Jón sem hefur upplifað tímana tvenna í uppsjávarveiðum, svo sem hrun loðnustofnsins oftar en einu sinni. Sífellt stærri skip kalla einnig á bætta hafnaraðstöðu í takt við þær breytingar sem eiga sér stað.
En lífið er ekki bara síld og sjómennska, Jón á sér ýmis áhugamál, sem flest tengjast útivist og hreyfingu. Á Þórshöfn má löngum sjá honum bregða fyrir á hlaupum meðan löndun stendur yfir en hann kláraði Ironman-keppni á Ítalíu í haust. Þangað fór hann ásamt Kristínu eiginkonu sinni þar sem þau luku Ironman 70,3 (½ Járnmanni) í september.
Jón og áhafnir Vestmannaeyjaskipanna eyða einnig drjúgum tíma í íþróttamiðstöðinni á Þórshöfn meðan verið er að landa en löndun getur tekið allt upp í 2-3 sólarhringa, eftir stærð farmsins.
„Á Þórshöfn er hægt að finna sér ýmislegt að gera, útivist eða veiðar en íþróttahúsið og sundlaugin ásamt stangveiði og skotveiði er líklega það vinsælasta hjá okkar mönnum,“ sagði Jón sem nú horfir bjartsýnn til næstu loðnuvertíðar eftir góða og gæfuríka sumarvertíð.