Olíuskipið Keilir bíður þess að skrúfuöxlar skipsins komi úr viðgerð í Danmörku. Vonast er til þess að hægt verði að ljúka viðgerð skipsins í næstu viku, enda gegnir það mikilvægu hlutverki við olíudreifingu á hafnir landsins.
Skipið var tekið í slipp 19. október og kom í ljós að öxuldraga þurfti það. Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar sem á Keili, sagði að senda hefði þurft öxlana til Danmerkur á sérhæft verkstæði sem er með viðurkenningu til að sjóða í og renna slíka öxla. Viðgerð á öxlunum lýkur í dag og þá er eftir að koma þeim aftur til landsins á sem stystum tíma. Öxlarnir eru rúmlega þriggja metra langir og um 300 kg hvor um sig.
Keilir hefur verið tvö og hálft ár í rekstri. Er þetta eðlilegt slit á svo skömmum tíma?
„Nei, okkur finnst það ekki,“ sagði Hörður. Hann sagði eftir að fara í gegnum það hvort þetta heyrði undir ábyrgð á skipinu.
Olíudreifing hefur gripið til ýmissa ráða til að hvergi verði olíuskortur á meðan Keilis nýtur ekki við. Þannig kom innflutningsskipið Fure Valo til Vestmannaeyja á sunnudag og losaði þar olíu. Skipið er 150 metra langt og 23 metra breitt, samkvæmt vefnum Eyjar.net. Það mun vera stærsta olíuskip sem komið hefur til hafnar í Vestmannaeyjum. Innflutningsskip koma líka með olíu á nokkrar stærri hafnir og er beinn innflutningur til Neskaupstaðar, Reyðarfjarðar og Akureyrar. Keilir hefur verið lestaður þar og flutt olíu á hafnir eins og t.d. Vopnafjörð og Þórshöfn. Keilir hefur farið um það bil hálfsmánaðarlega á Ísafjörð og Patreksfjörð. Hann fer oftar til Vestmannaeyja. Einnig fer Keilir á Höfn í Hornafirði, enda eina olíuskipið sem kemst þar inn.
Gert var átak í að dreifa olíu sem víðast áður en Keilir fór í slipp. Reiknað var með að hann yrði frá í hálfan mánuð. Töfin verður nær því að vera mánuður. Auk innflutningsskipanna verða olíuflutningar með bílum auknir til að mæta þörfinni fyrir olíu á meðan Keilir er í slipp.
Olíudreifing heldur birgðir af fljótandi eldsneyti og dreifir því fyrir eigendur sína N1 hf. og Olíuverslun Íslands hf. um allt land.