Meðal helstu tækja til að leggja mat á stöðu fiskistofna er að mæla aldur þeirra og í tilfelli þorsksins er aldur lesin í eyrnasteinum eða kvörnum fisksins. Það kallar á mikla þekkingu að geta greint aldur fisksins með þessum hætti, en um 20 þúsund kvarnir eru teknar úr þorskum á ári hverju.
Hægt er að beita nokkrum aðferðum við aldursgreiningu á fiskum. Algengastar eru greiningar á hörðum líkamshlutum fiska svo sem kvörnum, sem einnig kallast eyrnasteinar, og hreistri. Finna má kvarnir í pokalaga líffærum eða skjóðum í innra eyra allra beinfiska. Þær vaxa alla ævi líkt og fiskurinn sjálfur og talin mikil fylgni milli stærðar kvarna og stærðar fisksins og er á þeim grundvelli hægt að áætla stærð fisks út frá kvörnum.
Að aldursgreina þorsk er ekki mikið frábrugðið því að aldursgreina tré. Eins og flestum er kunnugt er aldur trjáa metin með því að telja árhringi í þverskornum drumbi.
Það sama á við um þorskinn en þá eru taldir vaxtarhringir á kvörnum sem myndast árlega. Breiðir og hvítir hringir myndast yfir sumarið þegar fæðuframboð er mikið og fiskurinn er í vexti en dekkri og mjórri hringir á veturna þegar vöxturinn er hægur.
Árlega er fjöldi fiska aldursgreindur hér á landi og er slík greining á ábyrgð Hafrannsóknastofnunar sem styðst við greininguna í rannsóknum sínum.
„Kvörnum þorska úr afla er safnað í landi. Safnað er á Suðurnesjunum og uppi á Akranesi frá höfuðstöðvunum í Hafnarfirði en útibú stofnunarinnar í Ólafsvík, á Ísafirði, Akureyri, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum sjá um söfnunina úti á landi. Yfirleitt eru fengin sýni beint frá bátum, á fiskmörkuðum eða í vinnslum,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.
„Árlega er safnað um fjögur til sex þúsund þorskkvörnum úr afla,“ útskýrir Guðmundur. Tíu starfsmenn stofnunarinnar koma að söfnuninni í útibúum og um sex starfsmenn í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði, „en í öllum tilfellum er þetta ekki eina verkefnið sem fólk sinnir.“
Auk þeirra kvarna sem safnað er úr afla er um tíu til 15 þúsund safnað á ári í vorralli, haustralli og netaralli, en í slíkum stofnmælingum fer söfnun fram um boð í rannsóknaskipum stofnunarinnar, Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni, eða í leiguskipum. Mest er safnað í vorrallinu að sögn Guðmundar en þá er safnað um fimm þúsund kvörnum.
„Áður en kvarnir eru aldurslesnar eru þær steyptar í resin og sagaðar í sérstakri sög sem skilar þunnum sneiðum sem teknar eru úr miðri kvörninni. Þessum sneiðum er raðað á gler og síðan aldursgreindar undir víðsjá. Það eru nokkuð mörg handtökin við utanumhald um kvarnirnar, bæði við undirbúning fyrir aldurslestur og frágang þeirra eftir greiningu. Að þessari vinnu koma þrír til fjórir starfsmenn í Hafnarfirði,“ segir Guðmundur.
Það er hins vegar ekki fyrir hvern sem er að lesa úr kvörnum enda þarfnast slíkt umtalsverðrar þekkingar. „Aldurslesningarnar eru svo gerðar af tveimur sérhæfðum kvarnalesurum en það tekur talsverðan tíma að þjálfa upp kvarnalesara og eru þeir oftast sérhæfðir á ákveðnar tegundir.“
Spurður hvaða hlutverk aldursgreining þorska hefur í tengslum við veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar svarar Guðmundur: „Aldursgreiningar eru hornsteinn í stofnmati þorsks og ýmissa annarra fiskistofna. Með því að aldursgreina þorsk fást upplýsingar um styrk árganga og dánartölu. Það er með því að skoða fjölda þorska, til dæmis fimm ára í fyrra miðað við sex ára í ár, má fá mat á veiðiálag að gefnum ákveðnum forsendum um náttúrulega dánartölu. Með náttúrulegum dauða er átt við þann þorsk sem er étinn af afræningjum, verður fyrir sjúkdómum eða álíka.“
En hvað segir aldursgreiningin okkur um framtíðarhorfur þorskstofnsins? „Framtíðahorfur þorsks miðað við aldurssamsetninguna eru þær að núna er vægi tiltölulega sterkra árganga að minnka í stofninum og þeir árgangar sem mynda megnið af veiðistofninum næstu tvö til þrjú árin eru lakari. Þannig er ekki búist við aukningu alveg í bráð.
Það eru hins vegar bundnar nokkrar vonir við 2019 og 2020 árgangana en þeir mældust nokkuð efnilegir í stofnmælingum í vor og haustralli í fyrra. Hins vegar getur brugðið til beggja vona með þá, en þeir koma ekki inn í veiðistofninn fyrr en 2023 og 2024,“ útskýrir Guðmundur.
Jón Már Halldórsson líffræðingur skrifar um gagnsemi kvarna fyrir fiska á Vísindavef Háskóla Íslands:
„Kvarnirnar eru í þremur vökvafylltum hólfum í innri eyrunum beggja megin við aftari hluta heilans og eru því sex talsins (þrjú pör). Veggir hólfanna eru alsettir skynfrumum með bifhárum sem skynja hreyfingar kvarnanna í vökvanum og senda boð um þær til heilans. Helstu hlutverk kvarnanna tengjast heyrnar- og jafnvægisskyni fisksins í sjónum.
Kvarnapörin þrjú nefnast sagitta eða stóra heyrnarkvörn, astericus eða litla heyrnarkvörn og lapillus eða jafnvægiskvörn. Sagitta-steinarnir eru stærstir og það eru árhringir þeirra sem vísindamenn skoða þegar meta á aldur fisks. Þessir steinar, ásamt astericus, sjá um heyrnarskynjun.
Þegar hljóðbylgjur berast um sjóinn fara þær í gegnum fiskinn því þéttleikinn er svipaður og hafið. Þegar bylgjurnar lenda á kvörninni, sem er mun þéttari, þá fer hún að titra og skynfrumurnar í veggjum skjóðunnar nema þennan titring sem hljóð.
Þriðja parið, jafnvægiskvörn, sér um jafnvægisskynjun. Þegar fiskurinn hallar á hliðina, færist kvörnin til í skjóðunni og snerting við bifhár skynfrumnanna gefur hallann til kynna og fiskurinn getur því rétt sig af.“