Hafin var ræktun á beltisþara í tilraunaskyni í Patreksfirði í síðustu viku í þeim tilgangi að meta aðstæður til þörungaræktar í firðinum í atvinnuskyni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Nordic Kelp sem er í eigu Odds Rúnarssonar og Víkings Ólafssonar.
„Í vor voru tekin móðurplanta af heilbrigðum beltisþara í Patreksfirði og send til Hollands til ræktunar. Svo voru gró af þeirri plöntu send aftur heim. Mikilvægt er að nota gró af móðurplöntum á hverju svæði fyrir sig til að trufla lífríkið sem minnst auk þess sem þær tegundir sem þegar eru til staðar eiga auðveldara uppdráttar frá náttúrunnar hendi,“ segir í tilkynningunni.
Línur voru lagðar út í Patreksfirði í síðustu viku og eru belgirnir á yfirborðinu sýnilegir undir Raknadalshlíðinni. „Það verður spennandi að sjá hvernig ræktunin mun ganga næsta árið og niðurstöðurnar munu nýtast til að taka ákvarðanir um framhald þörungaræktunar í firðinum og hvernig best verður að þeim staðið.“
Þá segir að skortur sé á lagaramma fyrir starfsemi af þessum toga hér á landi þar sem þörungarækt sé ekki skilgreind í íslenskum lögum og ekki ljóst hvernig sé ákveðið hverjir veiti leyfi til þörungaræktar. Jafnfrant sé þörf á að „í strandskipulögum við landið sé gert ráð fyrir þessari nýju vaxandi grein.“
Minnka slátt og auka rækt
Nordic Kelp hefur tekið þátt í rannsóknaverkefni NORA en markmið þess er að finna hentugar staðsetningar, staðla búnað til ræktunar stórþörunga á Íslandi, Grænlandi og í Noregi. Markmið verkefnisins er að nota sama búnað og sömu aðferðir í löndunum þremur til að geta greint mismuninn á ræktunarsvæðunum.
„Náttúrulegir þaraskógar eru mjög mikilvæg búsvæði fyrir svil og aðrar lífverur og því er áherslan að minnka á slátt þaraskóga og sjónir að beinast í auknum mæli að þörungaræktun. Ræktunin hefur jákvæð umhverfisáhrif og í samspili við fiskeldi getur þörungarækt nýtt umfram næringarefni í fjörðunum þar sem eldið er stundað og skapað þannig jafnvægi,“ segir í tilkynningunni.