Fjöldi landsela við íslandsstrendur hefur aukist um 9% milli áranna 2018 og 2020 en stofninn er enn töluvert minni en stjórnvöld hafa stefnt að.
Samkvæmt stofnmati 2020 var fjöldi landsela metinn 10.319 dýr og er stofninn því 69% minni en árið 1980 þegar hann var metinn um 33 þúsund dýr. Þá er stofninn 14% undir markmiðum stjórnvalda um að hann telji 12 þúsund dýr, að því er fram kemur í nýrri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
Stofnunin leggur til að „beinar veiðar á landsel verði áfram takmarkaðar“ en algjört bann var sett á selaveiðar árið 2019 og er aðeins heimilt að veiða sel með sérstöku leyfi frá Fiskistofu. Jafnframt er öll sala og markaðsfærsla á íslenskum sel og selaafurðum bönnuð.
Hafrannsóknastofnun telur nauðsynlegt að „gripið verði til frekari aðgerða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar, til að stuðla að því að stofnstærð nái aftur stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda.“ Hverjar þessar aðgerðir eru er ekki lýst en vakin er athygli á því í kafla ráðgjafarannir um mannleg áhrif á á stofninn að „afföll vegna óbeinna veiða (meðafli við fiskveiðar) eru umtalsverð og líklegt að helsta dánarorsök íslenskra landsela er vegna þess.“
Áhrif á grásleppuveiðar?
Metur stofnunin það svo að ástæða sé til að finna leiðir til að takmarka truflandi áhrif manna á landsel „sérstaklega yfir maí til ágúst þegar kæping og háraskipti eiga sér stað.“ Á sumum svæðum umhverfis landið er þetta helsta tímabil grásleppuveiða og er þá stuðst við net og er selur algengur meðafli slíkra veiða.