Eldi er hafið á ófrjóum laxi í sjó hér við land. Fyrstu seiðin fóru í sjókvíar hjá Fiskeldi Austfjarða í Berufirði um miðjan október. Sama fyrirtæki hefur hafið eldi á fyrsta laxinum sem hlotið hefur vottun sem lífræn framleiðsla. Öll seiðin koma úr nýrri seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Kópaskeri.
Hluti af eldisleyfum Fiskeldis Austfjarða er bundinn skilyrðum um að nota skuli ófrjóan lax, eða um 2.300 tonn. Þá hafa Matvælastofnun og Umhverfisstofnun auglýst tillögu að leyfi fyrir Fiskeldi Austfjarða til að ala 7.000 tonn af ófrjóum laxi í Stöðvarfirði. Eru þessar kröfur gerðar vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar sem gengur út á að draga úr hættu á að frjór lax sem kann að sleppa úr sjókvíum blandist þeim laxastofnum sem fyrir eru í laxveiðiám á svæðinu.
Fyrirtækið hefur verið að undirbúa útsetningu ófrjórra seiða undanfarin ár, í samvinnu við Benchmark Genetics og Hafrannsóknastofnun. Hrognin koma frá fyrrnefna fyrirtækinu en eru alin í stöðvum Fiskeldis Austfjarða í Rifósi og síðar í nýju stöðinni á Kópaskeri. Seiðin voru orðin um 200 grömm að þyngd þegar þau voru sett út í sjókvíar.
„Þetta eru stór og flott seiði og það gekk vel að koma þeim í kvína. Það er góður gangur í eldinu,“ segir Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, um geldu seiðin. Hann er bjartsýnn á framhaldið og segir að fyrirtækið sé með töluvert af seiðum til útsetningar á næsta ári. Liðlega 100 þúsund seiði eru nú í þessum kvíum í Berufirði og tæp tvö ár munu líða þar til fyrstu laxarnir verða fluttir til slátrunar á Djúpavogi.
Seiðastöðin á Kópaskeri reis á mettíma, eða tæpu ári. Fyrstu seiðin frá Rifósi voru flutt í stöðina í júlí til áframeldis. Náðist að ala þau upp í 200 grömm á þeim tæpu þremur mánuðum sem þau voru þar. Góðar aðstæður eru á Kópaskeri, mikið af 13 stiga heitum jarðsjó sem dælt er upp úr borholum. Þá eru í stöðinni aðstæður til að kæla seiðin niður í sjávarhita til að draga úr áhrifum hitabreytinganna þegar þau eru sett út í sjó. Með þeirri aðstöðu er hægt að lengja útsetningartíma seiða, bæði að vori og hausti.
Stefnt er að því að ala seiðin framvegis í 350 grömm og jafnvel upp í allt að 800 grömm fyrir útsetningu.
Í nýju stöðinni er hægt að hafa 400 tonna lífmassa og er nú unnið að umhverfismati fyrir sjöfalda stækkun, upp í 2.700 tonn. „Það gerir okkur kleift að framleiða nóg af seiðum til að nýta eldisleyfin fyrir austan á hagkvæmari og öruggari hátt en ella. Með því að ala seiðin lengur á landi er hægt að nýta þá kosti sem Ísland býr yfir. Ef litið er á allan eldistímann þá verður laxinn alinn jafnlengi á landi og í sjó,“ segir Guðmundur.
Fiskeldi Austfjarða hefur, eins og fleiri fiskeldisfyrirtæki, fengið vottun til framleiðslu á lífrænum laxi. Varð fyrirtækið fyrst til að framleiða þannig seiði og hefja sjóeldi. „Við þurftum litlu að breyta, vorum með vottanir fyrir sjálfbærni og uppfylltum því flest önnur ákvæði vottunarinnar. Það var aðallega vottun á fóðrinu sem vantaði upp á.
Laxinn verður í fyllingu tímans boðinn til sölu á vaxandi markaði fyrir lífrænar afurðir og selst við hærra verði. Vonir eru bundnar við að lífræna vottunin bæti afkomu fyrirtækisins í framtíðinni.
„Ég sé eftir að hafa ekki verið búinn að stíga þetta skref fyrir löngu,“ segir Guðmundur.