Í byrjun næsta árs verður belti brugðið á búk um 160 styrja og þær hífðar upp úr körum hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Ferðinni þaðan er heitið til Ólafsfjarðar þar sem Hið Norðlenzka Styrjufjelag hyggst hefja eldi á styrjum. Fyrstu styrjurnar eiga að hrygna strax næsta vor og góður markaður er sagður fyrir styrjuhrogn eða kavíar.
Um átta ár eru liðin frá því að Stolt Sea Farm hóf tilraunaeldi á styrjum á Reykjanesi og var meðalþyngd fiskanna í haust um 65 kíló. Megináherslan hjá Stolt Farm hefur verið á eldi senegalflúru og fyrirtækið er nú að hefja eldi á gullinrafa, þannig að styrjurnar þurfa að víkja.
Styrjufjelagið hefur fengið leyfi frá háskólanum í Bremerhaven til að nota einkaleyfi hans til að strjúka hrogn og svil úr fiskinum með ákveðnum hætti, að sögn Ásgeirs Loga Ásgeirssonar, stjórnarmanns í félaginu. Styrjurnar eiga að geta gefið hrogn annað hvert ár. Hrognin eru um 10% af þyngd hrygnunnar, þannig að úr hverri styrju geta komið frá sex og upp í tæp 20 kíló af hrognum. Við vistaskiptin verða styrjurnar vigtaðar, örmerktar og greindar. Ásgeir Logi bendir á að eins og í sauðfjárrækt vilji bændur fleiri gimbrar en hrúta.
Styrjurnar verða fluttar í súrefnistönkum á flutningabifreiðum norður eftir áramót, allt að átta í hverri ferð. Verið er að koma upp aðstöðu í gömlu saltfiskhúsi og unnið hörðum höndum að því að gera aðstöðuna fullnægjandi.
Kórónufaraldurinn hefur aðeins hægt á því að nauðsynlegur búnaður berist til landsins, en Ásgeir á von á að hann verði kominn upp á næstu vikum. Sömuleiðis hefur verið unnið að því að afla tilskilinna leyfa, m.a. hjá sveitarfélaginu og Matvælastofnun.
Nóg er af heitu og köldu vatni í Ólafsfirði, en styrjurnar verða aldar við 12-14 gráðu hita. Fyrst í stað er miðað við að hrogn verði fryst í kílóapakkningum og seld til frekari vinnslu. Þannig fáist 160-170 þúsund krónur fyrir hvert kíló. Ásgeir segir að í framtíðinni verði vonandi hægt að fullvinna hrognin og pakka í smærri og verðmætari einingar.
Ekki liggur fyrir hversu mörg framtíðarstörf eldið skapar, en hrognavinnslan er mannaflsfrek. Sömu sögu er að segja um seiðaeldi, en ráðgert er að fá nýja kynslóð til hrygningar eftir 7-8 ár og árlega eftir það. Þá er í bígerð að í gamla saltfiskhúsinu verði aðstaðan þannig að ferðamenn geti fylgst með styrjunum í körum sínum.
28 aðilar, fyrirtæki og einstaklingar, standa að Framfarafélagi Ólafsfjarðar og er Styrjufjelagið afsprengi þess. Eigendur síðarnefnda félagsins eru Framfarafélagið og félag í eigu Eyþórs Eyjólfssonar, sem starfar nú í Japan. Hann kom að innflutningi styrjanna hjá Stolt Sea Farm á sínum tíma.