Landssamband veiðifélaga segir í tilkynningu að það séu skelfileg tíðindi fyrir náttúruna og áfall fyrir sjókvíaeldi á Íslandi að ISA-veira, sem veldur sjúkdómnum blóðþorra í laxi, hafi greinst í sjókví hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði.
„Um er að ræða skæðasta og hættulegasta veirusjúkdóm sem þekkist í laxeldi og er þetta í fyrsta skipti sem sjúkdómurinn kemur upp hér á landi. Ljóst er að afleiðingarnar fyrir íslenska náttúru og sjókvíaeldi hér á landi geta orðið gríðarleg,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig, að ISA-veiran geti borist langa leið með hafstraumum og setji aðra fiskistofna í verulega hættu sem og alla laxfiska í sjókvíum hér á landi. Ekki sé ljóst hvernig veiran barst í kví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði enda hafi hún til þess ótal leiðir. Landssamband veiðifélaga hafi hins vegar ítrekað gert athugasemdir við að erlendir brunnbátar séu notaðir hér við land enda ljóst að sótthreinsun á heilum skipum er vandasamt verkefni.
„Landssamband veiðifélaga hefur verulegar áhyggjur af þessum fréttum og telur mikilvægara nú en nokkru sinni að vinnubrögð við slátrun og förgun á hinum sýkta laxi verði vönduð og undir ströngu eftirliti. Sambandið telur einnig að slátra eigi öllum laxi í kvíum í Reyðarfirði vegna hættu á smitum og afturkalla rekstrarleyfi í firðinum þar til tryggt er að komist hafi verið fyrir sýkinguna.
Landssamband veiðifélaga harmar þá stöðu sem komin er upp en eins og Sambandið og önnur náttúruverndarsamtök hafa margsinnis bent á undanfarið eru smitsjúkdómar í sjókvíaeldi mikil ógn við íslenska náttúru og villta laxfiskastofna. Slíkir sjúkdómar, ásamt hættu á erfðablöndun við villta stofna, laxalús og mengun, eru meginástæða þess að laxeldi í opnum sjókvíum er ótæk aðferð við matvælaframleiðslu,“ segir í tilkynningu Landssambands veiðifélaga.