Landsvirkjun hefur ákveðið að takmarka afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja í janúar. Heldur skerðingin áfram í vetur, ef aðstæður krefjast þess, en möguleikar á afhendingu eru í stöðugri skoðun.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Eftirspurn eftir raforku hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar hefur aukist mjög. Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, segir eftirspurnina slá öll met og hún eigi við allar greinar, svo sem framleiðslu á áli og kísilmálmi og starfsemi gagnavera. Afar hagfelldar ytri aðstæður hjá fyrirtækjunum og hátt heimsmarkaðsverð á afurðum veldur þessu. Nú fullnýta viðskiptavinir Landsvirkjunar almennt raforkusamninga sína og biðja um að fá að kaupa meira.
Hluti viðskiptavina Landsvirkjunar hefur samið um kaup á skerðanlegri orku og nýtur þess í verði. Þurfa þeir því að sæta skerðingum á afhendingu ef ekki er til næg orka. Á þetta við um fiskimjölsverksmiðjur, fiskþurrkanir og fjarvarmaveitur á köldum svæðum og samningar við stórnotendur eru einnig með skerðingarákvæðum.
Auk mikils álags á kerfinu er ástandið í vatnsbúskap á hálendinu verra en lengi hefur verið. Hefur Landsvirkjun ákveðið að takmarka afhendingu til fiskimjölsverksmiðja við 25 megavött í janúar en á fullum afköstum geta bræðslurnar nýtt um 100 MW. Þessi skerðing heldur áfram í vetur, ef aðstæður krefjast. Verða verksmiðjurnar því væntanlega að nota olíu til að bræða hluta loðnunnar á stærstu vertíð um árabil. 4
Mismunandi samningar
» Um 90% af samningum Landsvirkjunar um raforku eru um forgangsorku.
» Lítill hluti viðskiptavina hefur átt kost á skerðanlegri orku við hagstæðara verði. Þeir þurfa að sæta takmörkun á afhendingu ef aðstæður krefjast. Ekki hefur reynt á slíkt um árabil, þar til nú.