Veiran sem getur valdið blóðþorra í laxi hefur fundist í dauðum fiski í fleiri kvíum hjá Löxum fiskeldi á Gripalda í Reyðarfirði. Þótt ekki hafi orðið vart við að fiskurinn sé sýktur hefur verið ákveðið að flýta heldur slátrun úr öllum kvíum á Gripalda í öryggisskyni og hvíla svæðið.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Meinvirkt afbrigði staðfest
Matvælastofnun fékk í gær niðurstöður úr raðgreiningu á sýnum sem tekin voru í sýktu laxakvínni hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði. Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma, segir þær staðfesta að þar sé á ferðinni hið meinvirka afbrigði ISA-veirunnar sem veldur blóðþorra, eins og íslenskir sérfræðingar höfðu slegið föstu. Er það í fyrsta skipti sem sjúkdómurinn er staðfestur hér á landi. Strax var gengið í að slátra öllum laxi upp úr kvínni og farga honum. Gísli segir að rannsóknarfólk á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum sé í framhaldinu að athuga fingraför veirunnar, hvort þau finnist í nágrannalöndum eða hvort stökkbreytingin hafi orðið í kvínni í Reyðarfirði eins og Gísli hefur talið líklegast.
Sýni sem tekin voru úr dauðum fiski í nálægum kvíum sýna að ISA-veiran er þar. Ekki er vitað hvort þar sé að finna meinvirka afbrigðið sem veldur blóðþorra. Laxinn lítur vel út, að sögn Gísla, og sýnir ekki sjúkdómseinkenni. Eigi að síður hefur verið ákveðið að flýta slátrun upp úr þeim tíu kvíum sem eftir eru á Gripalda. Stefnt er að því að slátrun verði lokið fyrir páska en ef sjúkdómurinn hefði ekki komið upp hefði verið slátrað í áföngum fram á næsta haust. Segir Gísli að með þessu náist að hvíla svæðið í heilt ár, áður en farið verður að huga að útsetningu seiða þar að nýju.
Athuga með sláturskip
Í kvíunum er eftir um það bil 1,1 milljón laxa, samtals um fjögur þúsund tonn að þyngd. Fiskurinn verður unninn til manneldis enda er veiran skaðlaus fólki og berst ekki með afurðum. Laxar fiskeldi eru að huga að því að fá erlent sláturskip til aðstoðar, einkum til að slátra minnsta laxinum sem síður hentar í vinnslulínu laxasláturhúss Búlandstinds á Djúpavogi. Laxinn verður unninn um borð og landað í Danmörku.
Gísli tekur fram að rannsóknir sýni að blóðþorri leggist ekki á villta laxastofna.