Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á hafnalögum og hefur það verið kynnt í samráðsgátt. Meðal annars verður kveðið á um rafræna vöktun í höfnum. Er talin þörf á ákvæði þessa efnis til að vinnsla persónuupplýsinga byggist á viðhlítandi lagastoð en ekki er að finna ákvæði þessa efnis í hafnalögum.
Þá verður í frumvarpinu lagt til ákvæði um gjaldtöku hafna vegna fiskeldisstarfsemi. Er lagagrundvöllur slíkrar gjaldtöku talinn óskýr samkvæmt gildandi lögum og hefur grundvallast á ákvæðum hafnalaga um aflagjöld og framkvæmd við gjaldtöku verið mismunandi eftir sveitarfélögum, segir í kynningu á frumvarpinu.
Innleiðing reglugerðar
Þar segir að með frumvarpinu verði lagðar til lagabreytingar til innleiðingar á ákvæðum reglugerðar ESB um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Reglugerðin nær til hafna sem eru hluti af samevrópska flutninganetinu.
Breytingar þessar snúa m.a. að því að setja ákvæði um það þegar annar aðili en höfn býður upp á þjónustu í höfnum, möguleika hafnar eða lögbærs yfirvalds til að gera lágmarkskröfur til utanaðkomandi aðila til að bjóða upp á þjónustu við skip eða heimildir til að takmarka fjölda þeirra sem bjóða upp á þessa þjónustu og að hafnarstjórn ráðfæri sig við notendur hafna við álagningu gjalda.
Vaktstöð siglinga í hafnalög
Meðal annars verður lögð til heimild fyrir hafnir til að veita umhverfisafslætti frá hafnargjöldum. Mun sú heimild ná til allra hafna hér á landi.
Þá verður lögð til breyting á hafnalögum um stjórnsýslukærur og lögð til skilgreining á hafnarsvæðum þannig að sett verði fram viðmið um hvernig beri að afmarka hafnarsvæði á sjó í hafnarreglugerðum.
Lagt verður til að efni laga um vaktstöð siglinga, hafnsögu og leiðsögu verði færð í hafnalög. Enn fremur verða lagðar til breytingar á verkaskiptingu Samgöngustofu og Vegagerðarinnar á sviði hafnamála, m.a. er lýtur að eftirliti með hönnun og byggingu hafnarmannvirkja.