Engin hætta er talin steðja að grænlenska fiskiskipinu sem strandaði við Gerðistanga í kvöld né áhöfn þess en hafist verður handa í nótt við að losa skipið út, að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
„Þyrlusveitin er búin að fljúga um svæðið og það er enga olíu að sjá þannig að eftir að áhöfnin ráðfærði sig við vettvangsstjórn á staðnum sem er um borð í Freyju var tekin ákvörðun um að þyrlan færi aftur inn á flugvöll og væri þar í viðbragðsstöðu,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is.
Eins og stendur er skipið 500 metra undan landi og að sögn Ásgeirs eru aðstæður nokkuð góðar, aflandsvindur og ekki mikill sjógangur. Þá mun vind lægja eftir því sem líður á nóttina.
Gert er ráð fyrir flóði um fimmleytið í nótt og eru vonir bundnar við að hægt verði að hefja losun skipsins þá og fara með það inn til Hafnarfjarðar. Mun áhöfnin bíða um borð á meðan.
Nú þegar er undirbúningur hafinn en áhöfn Freyju er að koma dráttartaug milli varðskipsins og fiskiskipsins.
Að sögn Ásgeirs var Freyja heppilega staðsett þegar útkallið barst og gat áhöfnin því brugðist skjótt við og hafið aðgerðir strax.
„Freyja var að draga fiskiskip frá Akureyri inn til Hafnarfjarðar sem var bilað og var nýkomin úr því verkefni þegar að þetta útkall barst. Þannig að Freyja var bara á hárréttum stað.“