Jens Þórðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Geo Salmo ehf. Fyrirtækið hefur fengið vilyrði fyrir því að reisa eldisstöð vestan Þorlákshafnar og er stefnt að framleiðslu á 20 þúsund tonnum af laxi með möguleika á aukningu í 24 þúsund tonn.
Jens hefur, að því er fram kemur í fréttatilkynningu, víðtæka stjórnunar- og rekstrarreynslu eftir að hafa starfað í ýmsum stjórnunarstörfum undanfarin 15 ár hjá Icelandair Group. Síðast var Jens framkvæmdastjóri rekstrar.
Hann er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og er búsettur í Reykjavík ásamt Ernu Kristínu Blöndal, eiginkonu sinni og þremur börnum.
Lágmarka áhrif á umhverfið
„Geo Salmo stefnir að uppbyggingu fiskeldisstöðvar við Þorlákshöfn á næstu árum þar sem áformað er að ala lax í fulla stærð á landi. Lögð verður áhersla á að framleiða hágæða lax við bestu mögulegu aðstæður og með lágmarks áhrifum á umhverfið. Fyrirtækið leggur áherslu á að nýta allt sem fellur til við fiskeldið til hins ýtrasta, t.d. með nýtingu affallsvatns í ræktun grænmetis og nýtingu ónothæfra hliðarafurða fisks í orkuframleiðslu en einnig með þróun á nýjum vörum sem geta skapað aukin verðmæti,“ segir í tilkynningunni.
Jens hefur þegar hafið störf hjá félaginu en þar störfuðu fyrir þrír aðrir starfsmenn. Félagið er fullfjármagnað og hefur þegar hafið skipulags- og leyfisferli með hlutaðeigandi stofnunum ásamt hönnun fiskeldisstöðvarinnar.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í kringum landelsi í Þorlákshöfn.
mbl.is/Sigurður Bogi
„Mér er mikill heiður og ánægja að taka við þessu magnaða verkefni. Landeldi á laxi er í örum vexti á heimsvísu en með því má skapa umhverfisvæna og holla matvöru. Geo Salmo hefur óþrjótandi metnað fyrir því að vera framarlega á sínu sviði og nýta sér þau tækifæri sem þessi nýja framleiðslugrein býður upp á samhliða góðum áhrifum á nærsamfélagið og umhverfið. Þetta er frábær blanda og ég hlakka til að hefjast handa og taka þátt í sköpun nýrrar framtíðar í matvælaframleiðslu,“ segir Jens í tilkynningunni.