Sjómenn sem þurfa að sæta sóttkví í kjölfar þess að einhver í áhöfn greinist smitaður af kórónuveirunni verða fyrir töluverðu tekjutapi enda er afkoma þeirra tengd aflahlutdeild. Oft vinna tvær áhafnir á skipi á móti hvor annarri og ljóst að fleiri dagar úr túr getur haft verulegar afleiðingar fyrir tekjuöflun.
„Við höfum áhyggjur fyrir hönd þeirra sjómanna sem lenda í sóttkví og verða fyrir tekjutapi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við blaðamann. Hann segir sjómenn eins og aðra sem ekki geta sinnt vinnu vegna sóttkvíar háða þeim greiðslum sem ríkið veitir sérstökum greiðslum vegna sóttvarnaaðgerða samkvæmt lögum. Þær greiðslur eru hins vegar 21.100 krónur á dag eða ígildi 422 þúsund króna á mánuði, sem er langt undir því sem fengist með aflahlutdeild.
Þeir sem hins vegar reynast smitaðir og er skikkað að fara í einangrun er þó á aflahlutdeildargreiðslum að sögn Valmundar enda flokkast sú staða undir fjarveru vegna veikinda.
„Það er ljóst að menn hafa orðið fyrir tekjutapi, “ segir Valmundur. Hann fullyrðir fjölda sjómanna hafa lent í þeirri stöðu og hefur mikill fjöldi félagsmanna leitað til Sjómannasambandsins með spurningar um laun í sóttkví og einangrun.
Að minnsta kosti fimm skip, svo vitað sé, hafa þurft að hætta við veiðar og sigla til hafnar í vikunni eftir að skipverji hafi greinst smitaður af Covid-19. Þá hafa áhafnir þessara skipa þurft að fara í sóttkví og eru það rúmlega hundrað sjómenn sem um ræðir.
„Þetta er búið að ganga vel að undanförnu, samvinnannan milli sjómanna, útgerðarmanna og Landhelgisgæslunnar. Það er farið með menn í land eins og á að gera samkvæmt reglum,“ segir Valmundur.
Hins vegar sé mikil nýgengni smita áhyggjuefni bæði fyrir sjómenn og útgerð þar sem þetta komi ofan í tímabil sem einkennist af mikilli brælu sem hefur sínar afleiðingar fyrir gang veiða. „Það er meðal annars heil loðnuvertíð undir. Skipin þurfa að vera á á sjó til að ná kvótanum. Við höfum áhyggjur af þessari alvarlegu stöðu.“
Áhugi er meðal sjómanna að finna nýjar lausnir í sambandi við tilhögun sóttkvíar, að sögn Valmundar sem segir mikilvægt að skoða hvort hægt sé að finna sérstakar útfærslu með sjómenn í huga.
Þá hafa sóttvarnayfirvöld leitað til Sjómannasambandsins vegna hugsanlegs samráðs. „En við höfum ekki séð neinar reglur enn þá,“ segir formaðurinn.