Landssamband smábátaeigenda (LS) er ósátt við að skerðingar í útgefnum atvinnu- og byggðakvóta hafi aðeins bitnað á afla sem ætlað er strandveiðum og almennum byggðakvóta. Heilt yfir hefur atvinnu- og byggðakvóti þurft að sæta sömu skerðingum og aflaheimildir annarra veiða í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar.
Í síðustu viku funduðu fulltrúar LS með Svandísi Svavarsdóttur, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Meðal þess sem rætt var á fundinum var ákvörðun ráðherra 21. desember um að skerða þorskveiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða næsta sumar og almenns byggðakvóta sem valdið hefur „ólýsanlegum vonbrigðum,“ að því er segir í yfirlýsingu á vef LS.
Vekur LS athygli á því að strandveiðum er 2022 ætlað 8.500 tonn sem er 1.500 tonna skerðing frá síðasta sumri. „Á fundinum mótmælti LS ákvörðuninni harðlega. Sagði hana ganga þvert á þau markmið að tryggja 48 daga til strandveiða. LS lagði áherslu á að strandveiðar væru þær veiðar sem yllu minnstu raski í hafrýminu og minnstu kolefnissótspori. Auk þess hefðu þær reynst gríðarlega vel fyrir hinar dreifðu byggðir,“ segir í yfirlýsingunni.
Hvöttu samtökin ráðherra til að endurskoða ákvörðun sína.
Í takti við þróun
Auk skertra heimilda til strandveiða er almennur byggðakvóti til fiskiskipa skorinn niður um 874 tonn, úr 4.500 tonnum í 3.626 tonn. Hins vegar eru engar skerðingar í skel- og rækjubótum, byggðakvóta Byggðastofnunar, heimildum frístundaveiða eða línuívilnun.
Samanlögð skerðing atvinnu- og byggðakvóta nemur 2.374 tonnum sem er tæplega 11% niðurskurður. Þetta er í samræmi við þróun í útgefnu aflamarki en samdráttur í úthlutun aflamarks í þorski, ýsu, ufsa og karfa er 11,6%. (Ýsukvótinn var 8 þúsund tonnum minni en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar þar sem viðbótarkvóta var bætt við fiskveiðiárið 2020/2021).
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna fiskveiðiársins 2021/2022.
mbl.is