Margir eiga minningar frá siglingum íslenskra skipa með fisk til Bretlands. Eflaust eru þær af ýmsum toga og spanna langt tímabil síðustu aldar. Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, minnist þessa tíma með bros á vör og meira en það. Hann ber merki um góðan tíma í breskri höfn á tattúeruðum handleggnum þar sem stolt siglir fley undir fullum selgum.
Í sjónvarpsþáttunum Verbúðinni, sem Ríkissjónvarpið sýnir þessar vikurnar, er fjallað um upphaf kvótakerfisins á níunda áratugnum; stjórnmálamennina, bankana og fólk í sjávarþorpi, sem treystir á auðlindir hafsins, svo nokkuð sé nefnt. Í þættinum fyrir viku var greint frá söluferð til Hull og óhætt er að segja að á ýmsu hafi gengið.
Í þessari samantekt verður sjónum einkum beint að atriðum í þáttunum sem tengjast siglingum með fisk á markaði í Bretlandi á níunda áratugnum, en þær voru algengar fram undir lok síðustu aldar. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem skrifari fjallar um siglingar sem þessar því um 1980 var hann einn þeirra sem reglulega, stundum daglega, skrifaði fréttir um sölu íslenskra skipa á fiski í höfnum í Bretlandi og Þýskalandi.
Hringt var á skrifstofu Landssambands íslenskra útvegsmanna og spurningarnar voru gjarnan: „Hvað seldu þeir mikið? Hvert var meðalverðið?“ Mestur var spenningurinn þegar selt var á milli hátíða eða fyrsta viðskiptadag nýs árs þegar skortur var á fiski á mörkuðum. Þá gátu verð farið í hæstu hæðir og tekjur sjómanna voru eftir því.
„Þetta er ýkt, en um margt raunsönn lýsing,“ segir Valmundur, sem nú er í forsvari fyrir Sjómannasambandið, en fór margoft sem ungur maður í siglingatúra og á úr þeim góðar minningar. Hann byrjaði 17 ára gamall 1978 á togaranum Sigluvík, sem Þormóður rammi gerði út frá Siglufirði og var talsvert í siglingum fram til 1989.
Þeir voru mest í þorski og ýsu og sigldu iðulega með afla til Hull og Grimsby. Aðeins einu sinni sigldi Valmundur til Cuxhaven í Þýskalandi, en þar lönduðu frekar skip sem voru á karfa.
„Meðan stoppað var ytra fóru menn gjarnan í land og fengu sér kollu og kynntust líka öðrum lystisemdum,“ segir Valmundur. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað unga strákhvolpa sem voru kannski í sinni fyrstu utanlandsferð langaði að gera. Svo fengu menn sér tattú eins og ég gerði og versluðu heilan helling því siglingarnar gátu verið ávísun á góðar tekjur.“
Valmundur segir að í Grimsby hafi Rainbow verið aðalpöbbinn. Í Hull hafi það verið Earl de Grey sem kallaður var Grái greifinn upp á íslensku. Rauða ljónið, sem vikið er að hér til hliðar, hafi verið fyrir sinn tíma.
Valmundur skrifar ekki undir allt sem kom fram í sjónvarpsþáttunum og segir ýmislegt hafa verið með öðrum brag en þar er lýst. Annað kannast hann þó vel við.
„Ég held að það geti verið rétt að skipstjórarnir hafi stundum fengið greitt fyrir aflann í seðlum, sem þeir hafi þá borið um borð í pokum. Einnig held ég að dæmi séu um að útgerðarmennirnir flygju til Bretlands til að ná í peningana.
Það lá á að koma peningnum heim til að borga af lánum, greiða laun eða borga fyrir olíuna. Þá voru seðlarnir bara fluttir heim í ferðatösku því bankayfirfærslur gátu tekið nokkrar vikur og í þungum rekstri var sá tími ekki til. Það vantaði alltaf peninga.“
Valmundur segir að eitt árið hafi hann farið í sex siglingar. Tekjurnar hafi verið góðar og ýmislegt hafi verið keypt í Hull eða Grimsby.
„Við fengum 200 pund hver fyrirfram og yfirmennirnir eitthvað meira. Þannig að það varð að fara vel með. Pöntun var lögð inn hjá höndlaranum, matvara og fleira gott, en tollurinn var síðan dreginn af uppgjörinu þegar heim var komið.
Kjallarinn hjá afa var fullur af bjór, áfengi, makkintoss, kjúklingum og einhverju dóti. Þeir sem voru að byrja að búa keyptu margir þvottavél eða annað sem vantaði í búið.
Tollararnir höfðu ekki stórar áhyggjur af þessum innflutningi. Þeir fengu kannski beikon og egg hjá kallinum þegar skipið kom að bryggju og fóru sjálfir með bjórkasssa í land. Þetta var hvorki stórt né stórhættulegt smygl, flaska eða karton til eða frá skipti ekki öllu máli.“
Spurður hvort það hafi þekkst að skip hafi siglt meðan landverkafólk hafi verið í verkfalli segist hann hafa heyrt eldri sögur um slíkt. Á níunda áratugnum segir hann að það hefði tæplega komið til greina því bresk verkalýðsfélög hefðu einfaldlega tekið fyrir löndun. Hjá sjómönnum hafi verið heimilt að ljúka túr ef verið var að fiska í siglingu þótt félag þeirra hafi verið komið í verkfall. Núna sé það hins vegar alveg skýrt að skip haldi í land um leið og verkfall sjómanna skellur á.
Í grein sem Sigurgeir Jónsson skrifaði um Sjóminjasafnið í Grimsby í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1992 fjallar hann m.a. um siglingar til Bretlands, einkum á árunum frá 1960 til 1980. Þar segir:
„Um langt árabil sigldu skip úr Vestmannaeyjaflotanum til Bretlands með fisk, til Aberdeen, Fleetwood, Hull og Grimsby. Og aðallega Grimsby. Ekki veit sá, er þetta ritar, hvers vegna Grimsby varð oftar fyrir valinu meðal Vestmannaeyjaskipa en hinar hafnirnar en einhver hlýtur ástæðan að hafa verið. Raunar var oftlega farið til Hull, raunar mjög oft en alltaf hafði Grimsby vinninginn.
Nú er Grimsby ekki stór bær á breskan mælikvarða en býsna stór á íslenskan. Og ýmislegt var það sem staðurinn þótti hafa upp á að bjóða, langsigldum íslenskum sjómönnum, m.a. fjölbreytt verslanaúrval, svo og mikla skemmtan, þó svo að margir hverjir kæmust aldrei lengra en upp á Rauða ljónið. Sú ágæta og sáluga krá varð oftlega fyrsti og um leið síðasti viðkomustaður margra ágætra manna sem lítið sáu af lystisemdum Bretaveldis annað en þessa víðfrægu krá og fastagesti hennar.
Þetta var á þeim tímum sem Grimsby var miðpunktur Bretaveldis í augum margra góðra sjómanna; og þá sérstaklega Rauða ljónið.“