Af makrílkvóta Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði falla um 2.600 tonn niður á milli ára. Töpuð útflutningsverðmæti fyrirtækisins gætu numið um 600 milljónum króna vegna þessa, að sögn Friðriks Mars Guðmundssonar framkvæmdastjóra.
Hann segir að það ætti ekki að vera mikið mál fyrir sjávarútvegsráðherra að rýmka heimildir um flutning makríls á milli ára enn frekar svo uppsjávarútgerðir geti nýtt það á þessu ári, sem ekki náðist í fyrra. Auk Loðnuvinnslunnar kemur þessi staða illa við Skinney-Þinganes, Brim hf. og fleiri útgerðir.
Eins og greint var frá á miðvikudag falla í heildina niður um tíu þúsund tonn af heimildum í makríl. Loðnuvinnslan er með um fjórðung þessara heimilda og segir Friðrik Mar það vera áfall að geta ekki nýtt þessar heimildir. Undanfarin ár hafi verið skapað fordæmi með því að heimila flutning á ónýttum heimildum að mestu á milli ára. Í fyrra hafi verið heimilt að flytja 16%, árið 2016 var heimildin 20% og 2015 var leyft að flytja 30%. Í ár hefði heimildin þurft að vera upp á 23% en ráðherra ákvað að miða við 15%.
Loðnuvinnslan gerir út eitt skip til uppsjávarveiða, Hoffellið, sem ber 1.650 tonn og til að hámarka gæði til manneldisvinnslu sé miðað við 900-1.000 tonn í túr. Makríllinn veiddist á síðasta ári að stórum hluta utan landhelgi djúpt austur af landinu og þá reyndist burðargeta skipsins takmarkandi þáttur og gerir fjarlægðin minni útgerðum erfitt fyrir. Ekki hafi verið um það að ræða að sameina veiðar með öðrum skipum til að auka afköstin, eins og margar útgerðir með stærri flota gátu gert.
„Núna er ákveðið að skilja eftir að hámarki 15% þannig að tíu þúsund tonn falla niður, sem er mjög slæmt ef maður hugsar um hagsmuni Íslendinga, sérstaklega landsbyggðarinnar, og samningsstöðuna gagnvart öðrum strandríkjum,“ segir Friðrik.
„Á síðasta ári juku Færeyingar kvótann hjá sér úr 100 þúsund tonnum í 160 þúsund tonn. Norðmenn færðu kvótann úr 200 þúsund tonnum í 300 þúsund tonn. Á sama tíma var miðað við óbreytt hlutfall af ráðgjöf þegar kvóti íslenskra skipa var ákveðinn.“
„Staðan er sú núna að Færeyingar hafa ákveðið að geyma það sem út af stóð, alls um 59 þúsund tonn eða nánast sama magn og nam aukningu þeirra. Norðmenn eiga um 34 þúsund tonn eftir, sem þeir ætla líka að geyma fram á næsta ár. Á sama tíma sleppum við því að flytja 10 þúsund tonn á milli ára. Það er mjög slæm ákvörðun og ekki til að bæta samningsstöðu okkar gagnvart öðrum strandríkjum,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson.
Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði, hefur ýmislegt við þá ákvörðun ráðherra að athuga að heimila ekki að færa allar ónýttar aflaheimildir í makríl yfir á næsta ár. „Verst þykir mér að fá þessa ákvörðun í bakið síðustu daga ársins,“ segir Aðalsteinn. „Venjulega hefur verið hægt að færa þetta vandræðalaust á milli ára og ef á að breyta um kúrs í þessum efnum er eðlilegt að gefa það út fyrir fram svo menn hafi einhvern fyrirsjáanleika.“
Aðalsteinn tekur undir þau sjónarmið Friðriks Mars. Hann nefnir einnig að hagsmunir landsins séu samofnir veiðireynslu og það sé ekki sterkt í viðræðum við aðrar þjóðir ef kvóti hefur fallið niður. Þannig hafi Færeyingar og Norðmenn heimilað flutning á því sem út af stóð hjá þeim.
Hlutur Skinneyjar-Þinganess, sem fellur niður, er um þrjú þúsund tonn og gæti útflutningsverðmætið numið um 700 milljónum. Aðalsteinn segir að sannarlega myndi muna um þá fjármuni í atvinnulífinu á Höfn í Hornafirði.
Um ástæður þess að svo mikið var óveitt nefnir hann fjarlægðina á miðin, bilun í öðru skipa fyrirtækisins í upphafi vertíðar og minni burðargetu en hjá flestum öðrum útgerðum. Þá hafi fyrirtækið leigt til sín heimildir og menn verið bjartsýnir á vertíðina, sem hafi síðan reynst erfið og endaslepp.