„Fontur harmar ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skerða afla til strandveiða á komandi sumri, en treystir því að hún verði endurskoðuð og 48 dagar tryggðir til veiðanna,“ segir í yfirlýsingu Fonts félagi smábátaeigenda á Norðausturlandi. Ráðherra hefur gefið út að það verði ekki gert á yfirstandandi fiskveiðiári.
Mikil óánægja er meðal þeirra sem stunda strandveiðar með ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að skerða aflaheimildir sem ætlað er strandveiðum um 1.500 tonn milli ára. Hefur ráðherra sagst knúin til þess svo hægt yrði að hlífa öðrum þáttum atvinnu- og byggðakvóta í ljósi þeirra skerðinga sem urðu í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
„Ég stóð frammi fyrir því að ekki var hægt að lækka ráðstöfun í rækju- og skelbætur ásamt sérstökum byggðakvóta þar sem þeim hafði verið úthlutað á skip í upphaf yfirstandandi fisk-veiðiárs. Loks var það mat sérfræðinga ráðuneytisins að lækkun á línuívilnun og frístundaveiði myndi skila óverulegum árangri í þessu samhengi. Þá stóðu eftir tveir pottar, strandveiðar og almennur byggðakvóti og ljóst að lækka þyrfti ráðstöfun til þeirra þátta,“ sagði Svandís í svari við fyrirspurn 200 mílna vegna málsins.
„Ákvörðun ráðherra sýnir að knýjandi er að breyta fyrirkomulagi á ráðstöfun aflaheimilda úr 5,3% pottinum. Strandveiðar eiga ekki að vera háðar viðskiptum uppsjávarútgerða með veiðiheimildir,“ segir í yfirlýsingu Fonts og er vísað til þess að ráðherra hafi von um að meiri afli til strandveiða fáist í gegnum skipti ríkisins á aflaheimildum í öðrum tegundum fyrir þorsk við Íslandsstrendur.
Illa gekk að fá þorsk fyrir loðnu.
Telur Fontur að smábátaútgerða hafi spornað gegn samþjöppun aflaheimilda og komið í veg fyrir fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af í hinum dreifðu byggðum.
„Strandveiðar yfir sumarið hafa tryggt útgerð hundruð smábáta sem landað hafa afla á tuga útgerðarstaða um land allt. Þannig hafa hafnarmannvirki fengið endurnýjað hlutverk ásamt þjónustuaðilum. Síðast en ekki síst hafa strandveiðarnar gefið nýjum aðilum tækifæri á að hefja útgerð,“ fullyrða smábátaeigendur á Norðurlandi eystra í yfirlýsingunnni sem birt hefur verið á vef Landssambands smábátaeigenda.
„Veiðar smábáta á strandveiðum eru njörvaðar niður með alls konar takmörkunum. Það sem stjórnvöld ná þó ekki til er náttúran sjálf; veður og fiskgengd á grunnslóð. Að vitna í ofanálag til vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar er til að æra óstöðugan. Veiðar smábáta með handfærum þar sem aflinn sveiflast til og frá um 1% af leyfilegum heildarafla á enga samleið með vísindalegri nálgun,“ segir að lokum.