„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar hvetur hæstvirtan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hverfa frá 1.500 tonna niðurskurði aflaheimilda til strandveiða árið 2022,“ segir í bókun sem sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær.
Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið gagnrýnd af strandveiðisjómönnum að undanförnu fyrir að láta skert aflamark í þorski verða til þess að 15% skerðing verði á aflaheimildum sem ætlað er strandveiðum. Í fyrra var veiðunum veittar heimildir fyrir 10.000 tonnum af þorski en í ár verða það að óbreyttu 8.500 tonn.
„Sveitarstjórn telur að embættisverk ráðherra ættu að miða að því að tryggja strandveiðiflotanum nægar heimildir til þess að stunda veiðar í 48 daga á ári enda myndi slíkt styrkja sjávarbyggðir um land allt,“ segir í bókun sveitarstjórnar Skagastrandar, að því er fram kemur í fundargerð.
Vekur sveitarstjórnin athygli á því að 34 strandveiðibátar lönduðu afla í sveitarfélaginu í fyrra og nam heildarafli þeirra 613 tonnum sem er um 5% strandveiðiafla síðasta veiðitímabils. „Umtalsverð nýliðun hefur átt sér stað innan smábátaútgerðar á Skagaströnd á undanförnum árum sem tengja má beint við strandveiðikerfið,“ segir að lokum.
Gagnrýnina má rekja til þess að samkvæmt gildandi fyrirkomulagi er strandveiðimönnum heimilt að veiða að hámarki 12 á mánuði maí, júní,júlí og ágúst – alls 48 daga. En það er takmörkunum háð. Í fyrsta lagi má hver veiðiferð ekki vera lengur en 14 tímar, ekki má landa meira en 650 kíló af slægðum þorski í hverri ferð og ekki má nýta fleiri en fjórar handfærarúllur. Jafnframt er óheimilt að veiða á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.
Eins og málum er háttað nú lýkur strandveiðum þegar aflaheimildir veiðanna klárast og ná því ekki allir strandveiðimenn að róa 12 daga hvern mánuð auk þess sem breytur eins og veðurfar getur haft afdrifarík áhrif á það hvort hægt sé að stunda veiðar.
Strandveiðisjómenn hafa krafist þess að öllum verði tryggður réttur til að veiða 48 daga en ekki hafa tillögur þess efnis verið samþykktar á Alþingi. Fram kom á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem fram fór í október að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi borið undir sambandið hugmynd um að strandveiðimönnum yrði tryggður réttur til 48 daga veiða gegn kvótasetningu grásleppuveiða.
Á fundinum kvaðst Arthur Bogason, formaður Landssambandsins, hafa leitað til ráðherra til að afla frekari upplýsingar um hugmyndina, en þá hafi hann fengið þau svör að framkvæmd hennar væri politískur ómöguleiki.
Nýverið samþykkti Fontur, félag smábátaeigenda á Norðausturlandi,yfirlýsingu vegna málsins en þar áður hafði Landssamband smábátaeigenda lagt orð í belg.
Ekki er vitað hvaðan ætlast er til að ráðherra taki aflaheimildir til að færa strandveiðum, en Fontur gefur í skyn í yfirlýsingu sinni að strandveiðar eiga að vera utan þeirra aflaheimilda sem gefnar eru út á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar.
„Veiðar smábáta á strandveiðum eru njörvaðar niður með alls konar takmörkunum. Það sem stjórnvöld ná þó ekki til er náttúran sjálf; veður og fiskgengd á grunnslóð. Að vitna í ofanálag til vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar er til að æra óstöðugan. Veiðar smábáta með handfærum þar sem aflinn sveiflast til og frá um 1% af leyfilegum heildarafla á enga samleið með vísindalegri nálgun,“ sagði í yfirlýsingu Fonts.