Fyrirtaka í máli Reiknistofu fiskmarkaða ehf. gegn NRS ehf. og stofnendum félagsins, Eyjólfi Þór Guðlaugssyni og Erlingi Þorsteinssyni, fór fram síðastliðinn föstudag, en næstu skrefum í meðferð málsins var frestað. Ekki er að finna nýja dagsetningu á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness um hvenær málaferlin halda áfram.
Lögbann hefur verið á starfsemi NRS frá því í október í fyrra.
NRS var stofnað með það í huga að annast uppboð fiskmarkaða, en Reiknistofa fiskmarkaða hefur hingað til verið eina fyrirtækið hér á landi sem boðið hefur þessa þjónustu. Tveir fiskmarkaðir ákváðu að fela NRS að sjá um uppboð fyrir sína hönd, Fiskmarkaður Vestfjarða og Fiskmarkaður Snæfellsbæjar, og átti fyrsta uppboðið að fara fram 22. október.
Sama dag féllst sýslumaður á kröfu Reiknistofu fiskmarkaða um lögbann á starfsemi NRS. Við það fluttust öll uppboð til Reiknistofu fiskmarkaða á ný og hafa verið þar síðan.
„Þetta gengur mjög hægt. Þetta hefur gengið mun hægar heldur en maður var að vonast til,“ segir Eyjólfur sem kveðst ekki vilja tjá sig frekar á meðan málarekstur er enn fyrir dómstólum.
Kröfur Reiknistofu fiskmarkaða byggjast helst á því að Eyjólfur hafi ekki haft heimild til að nýta þekkingu sína með þessum hætti, í þágu keppinautar, eftir þrjátíu ára starf fyrir Reiknistofu fiskmarkaða.
NRS hugðist bjóða upp á ýmsar nýjungar við uppboð sín svo sem nýtt viðmót fyrir notendur.
Jafnframt átti að láta reyna á nýtt tilboðskerfi fyrir stærri farma sem er ekki eins hraðvirkt og hefðbundnu uppboðsferlin. Þegar slíku tilboðsferli er lokið reiknar kerfi NRS út hvaða samsetning á tilboðum gefur mestu verðmætin. Það er því ekki alltaf sá sem býður hæsta verðið sem fær það sem hann býður í, það er að segja ef hann býður bara í hluta boðsins. Auk þess getur seljandi sett lágmarksverð í tilboðskerfinu og ef það næst ekki verður ekki sala.
NRS ætlaði einnig bjóða upp á lausn sem felur í sér kaup á þjónustu beint af fiskmörkuðum í gegnum kerfi fyrirtækisins og getur það verið til að mynda slæging eða gámafrágangur.