Framleiðsla á laxi jókst um rúm 12 þúsund tonn á síðasta ári. Samsvarar það 35% aukningu. Sérfræðingur í fiskeldi segir að hvergi í heiminum sé viðlíka aukning í framleiðslu á atlantshafslaxi. Heildarframleiðsla í fiskeldi jókst heldur minna, eða um 31%, vegna stöðnunar í bleikjueldi sem átt hefur í vök að verjast á mörkuðum.
Framleidd voru rúmlega 46 þúsund tonn af laxi á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar. Er það um þrjú þúsund tonnum meira en reiknað hafði verið með.
Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Mast, segir að einkum tvennt hafi leitt til þess að aukningin varð meiri en hann hafi reiknað með. Lax hafi vaxið mjög vel í sjókvíum síðla sumars og fram eftir öllu hausti. Það hafi orðið til þess að sum fyrirtæki hafi orðið að hefja slátrun fyrr og létta á eldissvæðum fyrir veturinn, meðal annars til þess að halda lífmassa innan leyfa. Þá hafi veirusjúkdómur sem kom upp í Reyðarfirði í nóvember orðið til þess að ákveðið var að flýta tæmingu sjókvía á ákveðnu eldissvæði.
Laxaframleiðslan er sem fyrr borin uppi af sjóeldisstöðvum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Landeldið hefur heldur dregist saman, væntanlega tímabundið.
Arnarlax er sem fyrr stærsti framleiðandi á laxi hér á landi, nú með um 23.600 tonn, en Arctic Fish sækir að þeim, var með um tvö hundruð tonnum minna á nýliðnu ári. Sjóeldisstöðvarnar á Austurlandi eru í miklum vexti.
Framleiðsla bleikju stendur í stað og er heldur minni en spáð hafði verið. Gísli segir að kórónuveirufaraldurinn hafi mikil áhrif á markað fyrir bleikju því hann sé ekki eins opinn og skilvirkur og laxamarkaðurinn. Sérstaklega hafi litlar og meðalstórar bleikjustöðvar fundið fyrir samdrætti í ferðaþjónustu. Bleikjan hafi verið vinsæl á matseðli hótela um allt land. Þetta hafi leitt til þess að nokkrar stöðvar hafi hætt rekstri og sumar verið seldar til laxaseiðaframleiðslu. Samherji er sem fyrr langstærsti framleiðandi bleikju hér á landi og raunar í heiminum.
Mikil aukning varð í framleiðslu á regnbogasilungi eftir mikinn samdrátt sem varð 2018. Segja má að regnboginn sé nokkurs konar biðeldi fyrir lax. Hann er notaður á meðan verið er að afla leyfa fyrir lax. Það á ekki síst við Ísafjarðardjúp þar sem Háafell hóf slátrun á regnbogasilungi á síðasta ári en vinnur að því að skipta yfir í lax. Því má búast við að aftur dragi úr framleiðslu. Stór hluti framleiðslunnar kemur þó úr landeldi, frá Matorku við Grindavík.
Gísli telur að á næstu árum muni draga úr þeirri miklu aukningu sem verið hefur í framleiðslu á laxi hér á landi að undanförnu. Hann reiknar með nokkurri aukningu í ár þó að flýting á slátrun úr sjóeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum hafi tekið sinn toll. Þrátt fyrir það telur hann að laxinn rjúfi 50 þúsund tonna múrinn áður en árið verður úti.
Sigurður Pétursson, stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish, segir að aukningin á síðasta ári sé meiri en þekkist í öðrum löndum þar sem atlantshafslax er alinn. Talar um heimsmet í því sambandi.
Tvennt setur frekari aukningu skorður. Óvissa er með leyfamál. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi leyfi vegna þess að stjórnvöld létu ekki gera umhverfismat áætlana fyrir burðarþols- og áhættumat. Unnið er að úrbótum á því. Þá er Eftirlitsstofnun EFTA að fetta fingur út í breytingar á lögum sem sett voru til að starfsemi sjóeldisstöðva gæti haldið áfram tímabundið og ekki þyrfti að slátra hálfvöxnum fiski þótt úrskurðarnefnd felldi leyfi úr gildi.
Bæði þessi mál snúa að stjórnvöldum en gætu bitnað á fiskeldisfyrirtækjunum á þann hátt að erfiðara verði að veita þeim leyfi.
Þá eru fyrirtækin langt komin með að fullnýta seiðaeldisstöðvar sínar og ekki endalaust hægt að auka við án stækkunar. Hafnar eru framkvæmdir við tvöföldun seiðastöðvar Arctic Fish í Tálknafirði en nokkur ár tekur að ljúka framkvæmd og ala seiði í rétta stærð.
Áform eru uppi um stórfellda uppbyggingu landeldis á Reykjanesi og í Þorlákshöfn. Uppbyggingin tekur tíma og nokkuð er í að stöðvarnar skili framleiðslu á laxi í stórum stíl.
Sjúkdómastaðan í íslensku fiskeldi er almennt góð, að sögn Gísla. Þó varð það áfall þegar veirusjúkdómurinn blóðþorri greindist í sjókví í Reyðarfirði í nóvember. Öllum laxi úr kvínni var slátrað og ákveðið að flýta slátrun á öllum þeim laxi sem eftir var á staðsetningunni.
Lítið hefur orðið vart við laxalús á árinu. Þurfti þó að gefa lúsalyf í haust en það var í öllum tilvikum nema einu vegna fiskilúsar.