„Nei, því fer fjarri. Þessi kví að Vattarnesi er langleiðina eins langt frá kvíasvæðinu við Gripalda – þar sem við greindum blóðþorra í nóvember – eins og hægt er,“ svarar Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma, er hann er spurður hvort sjókví sem uppgötvaðist gat á kunni að innihalda sýktum fiski.
Matvælastofnun, Fiskistofu og Fjarðabyggð var gert viðvart er gatið uppgötvaðist í gær og voru viðbragðsáætlanir virkjaðar. Talið er að gatið hafi verið á það miklu dýpi og það lítið að ekki sé hætta á að margir laxar hafi strokið úr kvínni, en ekki er hægt að útiloka slíkt. Net voru lögð í gær til að ná hugsanlegum laxi sme kann að hafa strokið.
Er fréttist af gatinu fór að bera á athugasemdum m.a. til 200 mílna um að hér kynni að vera hætta á að lax sýktur af ISA-veirunni sem veldur blóðþorra myndi smita villta laxa þar sem smit kom upp í sjókví í Reyðarfirði í fyrra.
Gísli segir getgátur um slíka hættu ekki byggja á fyrirliggjandi upplýsingum. Hann segir blóðþorra hafa komið upp á eldissvæði við Gripalda sem er innarlega í Reyðarfirði sem er um 12 kílómetra frá Vattarnesi þar sem gatið uppgötvaðist. Auk svæðanna tveggja er eldissvæðið Sigmundarhús í Reyðarfirði.
„Lax í þessari kví [við Gripalda] var slátrað umsvifalaust og var allur á bak og burt í lok nóvember sl. Til að framfylgja ýtrustu smitvörnum var einnig tekin sú ákvörðun að slátra öðrum laxi úr kvíum á sama eldissvæði, jafnvel þó sjúkdóms yrði ekki vart,“ segir hann.
Til að gæta allrar varúðar eru bæið svæðin þar sem ekki kom upp veirusmit undir eftirliti –Vattarnes (þar sem gatið uppgötvaðist) og Sigmundarhúsi. „Þar hafa verið tekin fjöldi sýna til PCR-greininga. Öll sýni hafa verið algjörlega „hrein“ og án smits og alls ekkert sem bendir til að smit hafi náð út fyrir eldissvæðið við Gripalda. Veiran er viðkvæm ef hún ekki er í fiskinum og berst ekki langt áður en hún drepst,“ útskýrir Gísli.
Ekkert sé til staðar sem bendi til þess að þarna hafi verið hætta á ferð, að sögn hans. „Þessi veira hefur aldrei valdið klínískum sjúkdómi í villtum laxi, hvergi í heiminum. Ógn gagnvart villtu lífríki stenst því enga skoðun.“