Smyrjarinn Haukur Davíð Grímsson hefur starfað lengst núverandi manna á varðskipum Landhelgisgæslunnar. „Ég byrjaði 1972,“ segir hann eins og ekkert sé eðlilegra en að vinna í hálfa öld á sama stað og orðlengir það ekki frekar. „Þetta er góður vinnustaður.“
Sveinn Magnússon, frændi Hauks, var smyrjari á gamla Þór og útvegaði unglingnum vinnu á skipinu. „Ég byrjaði sem messagutti og síðan fór ég sem aðstoðarmaður í vél á Óðni árið eftir en skipti yfir á Tý, sem var nýkominn til landsins, 1975,“ rifjar Haukur upp. Hann hafi verið smyrjari á Tý til 1986, unnið í landi í þrjú ár, farið síðan á Óðin 1989, verið á honum þar til Gæslan hafi látið hann frá sér, og síðan haldið uppteknum hætti á Tý þar til Freyja hafi verið tekin í notkun á nýliðnu ári. Frá því hafi hann verið smyrjari á nýjasta skipi flotans og kunni því vel. „Þeir kalla mig yfirsmyrjara en ég er bara smyrjari.“
Lífið á sjónum á vel við Hauk. „Hérna er góður starfsandi, ágætislaun og löng frí á milli túra,“ útskýrir hann. Fimm manns eru í vélarrúminu, þrír vélstjórar og tveir smyrjarar. „Óskar Skúlason er smyrjari með mér og hann hefur nærri unnið jafn lengi og ég hjá Gæslunni.“ Unnið er á 12 tíma vöktum, vetrartúrarnir standa yfir í þrjár vikur og sumartúrarnir í 17 daga en að auki er unnið tvo daga í landi fyrir og eftir hvern túr.
„Ég á gamla bíla og stöðugt þarf að dytta að þeim en svo slappa ég líka bara af í fríum og geri mig kláran fyrir næsta túr, er hress og kátur, þegar ég fer út aftur.“
Bretar tóku stækkun íslensku landhelginnar óstinnt upp og í kjölfarið var hasar á miðunum. „Ég tók þátt í tveimur þorskastríðum, í 50 og 200 mílna stríðunum, fyrst á Óðni og svo á Tý.“ Hann segir það hafa verið óvenjulega lífsreynslu. „Mér fannst þetta mjög gaman, spennandi, en ég fékk reyndar stundum í magann, þegar þeir sigldu á okkur og við vorum varnarlausir niðri í vél, fundum bara þegar dallurinn skall á okkur.“
Þrátt fyrir óvissuna segist hann aldrei hafa verið hræddur um líf sitt. „Ég vissi að þeir myndu aldrei ganga svo langt.“ Engu að síður hafi ein árásin á Tý verið mjög alvarleg. „Yfirleitt létu þeir sér nægja að fara með síðu í síðu en í þessu tilviki sigldu þeir með stefnið inn í síðuna. Sem betur fer var ég í fríi í þessum túr, eina fríið mitt í þorskastríðunum.“
Eðlilega hafa hlutir almennt breyst til batnaðar á undanförnum 50 árum. „Allur aðbúnaður hefur breyst, hann var ekki merkilegur á Óðni, lagaðist á Tý og allt er mun fullkomnara á Freyju en við höfum áður átt að venjast.“ Áður hafi menn verið löðrandi í smurolíu en svo sé varla lengur. „Stundum lendum við samt í smá hasar með ýmislegt en nú erum við reyndar mest í eftirliti og viðhaldi, að þrífa og mála og aðstoða vélstjóra við það sem þarf að gera.“
Haukur segir að vel gangi að aðlagast nýju skipi. Freyja sé lík Þór, til dæmis séu sams konar vélar í skipunum, og margir hafi farið af Þór yfir á Freyju, meðal annars yfirvélstjórinn. „Við erum allir saman í þessu, forðumst vesen og reynum að vera með allt á hreinu. Það er líka skemmtilegast.“