Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í Reykjavík sunnudaginn 12. júní á þessu ári. Venjan er sú að halda daginn hátíðlegan fyrsta sunnudag í júní en að þessu sinni ber hann upp á hvítasunnudag. Því seinkar hátíðinni um eina viku.
Það eru Faxaflóahafnir, sjómannadagsráð og Brim sem eru bakhjarlar hátíðarinnar og standa að hátíðarhöldunum úti á Granda. Undirbúningur er hafinn þótt rúmir fjórir mánuðir séu til stefnu. Á dögunum undirrituðu þessir aðilar samstarfssamning sín á milli með það að markmiði að auka hróður dagsins.
Sjómannadagurinn hefur verið kynntur sem hluti af Hátíð hafsins undanfarin ár og hafa hátíðahöldin staðið yfir tvo daga. Í ár verður þó sjómannadagurinn sjálfur látinn duga. Hátíð hafsins hefur fallið niður tvö undanfarin ár vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar en vonir standa til þess að hátíðin verði haldin að þessu sinni. Um 40.000 manns lögðu leið sína á Grandagarð árið 2019, þegar hátíðin var síðast haldin.
„Við ætlum að gera daginn eftirminnilegan fyrir gesti og gangandi, enda hefur hátíðin fest sig í sessi og verður æ fjölmennari ár frá ári. Það sem vakir ekki síður fyrir okkur er að kynna þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga og gefa fólki innsýn í starfsemina,“ segir Aríel Pétursson, stjórnarformaður sjómannadagsráðs, í tilkynningu frá ráðinu.
Samstarfsaðilarnir hafa samið við Önnu Björk Árnadóttur, eiganda viðburðafyrirtækisins Eventum, um að stýra hátíðinni auk þess sem þeir fengu Elísabetu Sveinsdóttur til að sjá um markaðs- og kynningarmálin. Undirbúningur af þeirra hálfu er hafinn, enda að mörgu að huga fyrir jafn viðamikla hátíð.