Ekki eining um strandveiðifrumvörp

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Eyjólfur Ármannsson eru …
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Eyjólfur Ármannsson eru öll flutningsmenn sitthvorts frumvarpsins um breytingar á tilhögun strandveiða. Samsett mynd

Alls hafa verið lögð fram þrjú frumvörp á Alþingi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða er snúa að tilhögun strandveiða. Ekkert þeirra er stjórnarfrumvarp en eitt þeirra er lagt fram af Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, varaþingmanni meirihlutans. Þá hafa tvö keimlík frumvörp verið lögð fram hvort af sínum þingflokki minnihlutans, Flokki fólksins og Pírötum, sem snúa að því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Flokkur fólksins dró hins vegar frumvarp sitt til baka og var búist við að lagt yrði fram nýtt frumvarp í gær.

Frumvarp Lilju Rafneyjar gengur fyrst og fremst út á að tryggja strandveiðisjómönnum þá 48 daga til veiða sem þeir hafa krafist með því að auka heimildir ráðherra til að flytja aflaheimildir milli flokka innan atvinnu- og byggðakvótakerfisins.

Af aflaheimildum sem gefnar eru út — í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarkssókn — eru 5,3% þeirra tekin frá og veitt atvinnu- og byggðakvóta. Í kjölfar þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar lækkaði fyrir yfirstandandi fiskveiðiár voru heimildir til þessa kerfis einnig skertar, en niðurskurðurinn náði að mestu til þess afla sem ætlaður var strandveiðum. Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði þá ákvörðun tekna vegna þeirra skuldbindinga sem stofnað hafði verið til.

Sætti ákvörðun ráðherra um að skerða strandveiðikvótann um 15%, úr 10.000 tonnum í 8.500 tonn, töluverðri gagnrýni.

Breytingu innan kerfis

Lilja Rafney kveðst vilja auka sveigjanleika innan kerfisins í þeim tilgangi að hægt verði að auka þann afla sem ætlaður er strandveiðum og þannig tryggja strandveiðisjómönnum 48 veiðidaga án þess að fara út fyrir ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að áfram verði 5,3% af útgefnum aflaheimildum færð til atvinnu- og byggðakvóta en lagt er til að hlutfallið í uppsjávarfiski verði 10,3%. Slíkar heimildir hafa meðal annars verið nýttar til skipta fyrir heimildir í þorski á tilboðsmarkaði sem síðan er ráðstafað ýmsum verkefnum innan þessa kerfis. Þá er einnig lagt til að ráðherra verði heimilt á yfirstandandi ári að flytja til strandveiða allt að 30% af þorskveiðiheimildum almenna byggðakvótakerfisins auk skel- og rækjuuppbóta fiskveiðiársins 2022/2023.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG. mbl.is/Sigurður Bogi

Lilja Rafney er nú varaþingmaður Vinstri grænna en sat á þingi fyrir flokkinn í 12 ár. Hún kom nýverið inn á þing í um viku fyrir þingmanninn Bjarna Jónsson. „Þá sá ég mér ekki annað fært en að fylgja baráttu minni, og þeirra sem hafa staðið mér við hlið í greininni og á þingi, eftir,“ segir hún. „Þetta er ekki stór pottur en þarna er mikið undir fyrir margar sjávarbyggðir,“ bætir hún við og metur það svo að stuðningur sé við frumvarpið meðal alþingismanna.

Nokkur stuðningur virðist vera við frumvarp Lilju Rafneyjar en Strandveiðifélagið Krókur, félag smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu, hefur lýst „fullum stuðningi“ við frumvarp hennar. Það hefur Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn einnig gert og nú síðast á mánudag samþykkti Félag smábátaeigenda í Reykjavík yfirlýsingu um stuðning við frumvarp Lilju Rafneyjar.

Ekki eining um handfærafrumvörp

Tvö frumvörp hafa verið lögð fram um breytingu á ákvæðum laga um strandveiðar sem ganga út á að gefa handfæraveiðar frjálsar. Í frumvarpi Pírata er gert ráð fyrir að handfæraveiðar verði heimilaðar allan ársins hring og að afli sem fæst reiknist ekki til aflamarks eða krókaaflamarks. Þá er lagt til að ekki verði heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð.

Flokkur fólksins lagði fram frumvarp sem átti að heimila öllum íslenskum ríkisborgurum að stunda veiðar á eigin bát með tveimur handfærarúllum á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert. Þá var stefnt að því að heimila fjórar rúlllur ef tveir væru um borð. Eins og í frumvarpi Pírata er gert ráð fyrir að afli sem fæst með þessum hætti sé ekki reiknaður til veiðiheimilda og sé utan heildarúthlutunar þeirra.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvort reynt hafi verið að finna einhvern samstarfsflöt milli flokkanna í málinu, svarar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður handfærafrumvarps þess flokks: „Flokkur fólksins fór bara og lagði fram fullt af frumvörpum þrátt fyrir að aðrir flokkar hefðu verið með svoleiðis frumvörp. Það er almennt séð ekki mjög kurteist að gera svoleiðis.“

Björn Leví kveðst þó sannfærður um að fólk sé almennt sammála um handfæraveiðar. „Ég held það séu allir hlynntir auknum strandveiðum, hvernig sem það raungerist síðan og hver sem lokaniðurstaðan verður. Þetta er langtímamarkmið hjá okkur og við stefnum að því en það þarf að taka þetta í skrefum.“

Breyta kerfinu til betri vegar

Flokkur fólksins telur sig hafa sett fram frumvarp um handfæraveiðar fyrst og segir Eyjólfur Ármannsson, þingmaður flokksins og fyrsti flutningsmaður handfærafrumvarps þess, frumvarp Pírata byggja á frumvarpi Flokks fólksins. „Þetta er áratuga gamalt eins og kemur fram í greinargerðinni hjá okkur.“ Vísar hann til frumvarps Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn árin 1999 til 2009.

Eyjólfur viðurkennir að frumvarp Flokks fólksins hafi verið dregið til baka í þeim tilgangi að gera nokkrar endurbætur á því en það verði lagt fram á ný í dag. Spurður hvort hann geri ráð fyrir því að hægt verði að eiga samstarf við Pírata um málið, svarar hann því játandi. „Þetta er gríðarlegt réttindamál.“

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins. Ljósmynd/Flokkur fólksins

Er blaðamaður spyr Lilju Rafneyju um afstöðu hennar til frumvarpanna um frjálsar handfæraveiðar svarar hún: „Ég hef verið þeirrar skoðunar að pólitískt væri það ekki að nást í gegn á Alþingi í raunheimum og þess vegna hef ég verið að leita annarra leiða til að reyna að breyta kerfinu til betri vegar fyrir þessar smærri útgerðir. Ég hef talið þá leið takast.“

Hún kveðst ekki ætla að leggja sérstakt mat á þau frumvörp sem Flokkur fólksins og Píratar hafa teflt fram en segist telja rétt „ að sameinast um það sem er gerlegt við núverandi aðstæður“.

Stjórnmálamenn og vísindamenn ósammála

Bæði frumvarp Pírata og Flokks fólksins gera ekki ráð fyrir að við samþykkt frjálsra handfæraveiða verði gerðar frekari breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Munu því slíkar veiðar vera utan ráðlagðra hámarksveiða Hafrannsóknastofnunar verði frumvörpin samþykkt. Flutningsmenn frumvarpanna segja handfæraveiðar ekki hafa áhrif á stofnstærð, en það telur Hafrannsóknastofnun.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, kveðst ekki hafa áhyggjur af áhrifum frjálsa handfæraveiða umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og segist hafa gögn sem styðji þá staðhæfingu að slíkar veiðar hafi ekki áhrif á stofnstærð. Jafnframt fullyrðir hann að veiðar innan aflamarks og krókaaflamarks fari nú þegar meira umfram ráðgjöf en það sem handfæraveiðarnar myndu gera og vísar hann meðal annars til þess að aflaheimildir séu færðar milli fiskveiðiára.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, tekur í sama streng og segir útilokað að handfæraveiðar geti ógnað fiskistofnum. Vísar hann til skrifa Jóns Kristjánssonar fiskifræðings máli sínu til stuðnings, en Jón hefur gagnrýnt aðferðir Hafrannsóknastofnunar í mörg ár.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, tekur undir orð þingmannanna tveggja og kveðst sannfærð um að handfæraveiðar ógni ekki lífríkinu.

„Telur Hafrannsóknastofnun frjálsar handfæraveiðar sem yrðu utan aflamarkskerfisins (s.s. veitt umfram aflamark gefið út í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar) hafa teljandi áhrif á fiskistofna umhverfis Ísland?“ spyr blaðamaður í fyrirspurn beint til Hafrannsóknastofnunar.

„Stutta svarið er já, stofnunin telur að slíkar veiðar hafi áhrif á stofna. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miðast við hámarksafrakstur og fari veiðar fram yfir ráðgjöf þá er verið að taka meira út úr viðkomandi stofni en er sjálfbært til lengri tíma,“ segir í svari Guðmundar Þórðarsonar, sviðsstjóra botnsjávarsviðs.

Guðmundur Þórðarson.
Guðmundur Þórðarson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 530,81 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 345,49 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 199,50 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 232,84 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 707 kg
Keila 202 kg
Hlýri 115 kg
Ýsa 32 kg
Karfi 5 kg
Ufsi 5 kg
Samtals 1.066 kg
23.11.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 377 kg
Keila 300 kg
Karfi 242 kg
Hlýri 104 kg
Ýsa 45 kg
Samtals 1.068 kg
23.11.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.484 kg
Ýsa 858 kg
Steinbítur 6 kg
Keila 2 kg
Samtals 2.350 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 530,81 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 345,49 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 199,50 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 232,84 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 707 kg
Keila 202 kg
Hlýri 115 kg
Ýsa 32 kg
Karfi 5 kg
Ufsi 5 kg
Samtals 1.066 kg
23.11.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Þorskur 377 kg
Keila 300 kg
Karfi 242 kg
Hlýri 104 kg
Ýsa 45 kg
Samtals 1.068 kg
23.11.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.484 kg
Ýsa 858 kg
Steinbítur 6 kg
Keila 2 kg
Samtals 2.350 kg

Skoða allar landanir »

Loka