Hnúðlax er framandi í íslenskum ám og er síður en svo aufúsugestur alls staðar. Talað hefur verið um hann sem flæking, en síðustu ár hefur hnúðlöxum fjölgað mjög þannig að hæpið er að tala um flækinga lengur. Hrygning hefur verið staðfest hér, en óvissa er um hvort klak hefur tekist þar sem seiði hafa ekki fundist enn.
Yfirgnæfandi líkur eru þó taldar á að það hafi tekist og reynt verður að fylgjast með þeirri framvindu í vor. Ljóst þykir að honum muni fjölga á komandi árum eins og annars staðar við norðanvert Atlantshaf.
Spurður um stöðuna segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri á ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknastofnunar, að þegar rigni sé hægt að fara í skjól eða setja upp regnhlíf. Það sé hins vegar ekki hægt að skrúfa fyrir og líkir þannig auknum göngum hnúðlax við rigninguna. Þróun hnúðlaxastofns sé meðal annars til umræðu á vettvangi sérfræðinga við Norður-Atlantshafið. Vöktun og auknar rannsóknir séu nauðsynlegar á lífsferli og hegðun hnúðlaxa og hvaða vistfræðileg áhrif þessi nýja tegund kunni að hafa á laxfiska í íslenskum ám og afkomu þeirra.
Guðni segir að ekki sé seinna vænna en að fara að skoða hvað menn vilji gera við hnúðlax, sem einnig er nefndur bleiklax, og setja honum ramma í umhverfi laga og reglugerða í stjórnkerfinu. Þannig hafi veiðiréttarhafar rekist á hindranir í kerfinu á síðasta sumri þegar þeir hugðust draga fyrir og veiða hnúðlax til að gera tilraun til að stemma stigu við mögulegum áhrifum hans.
Komið hafi í ljós að hnúðlax er ekki tilgreindur í lögum um lax- og silungsveiði og að ekki hafi verið lögfræðilega heimilt að draga fyrir til að drepa hnúðlaxa. Ekki hafi heldur verið ljóst hvort slíkt hafi verið ólöglegt.
Hnúðlax tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa og eru náttúruleg heimkynni við Kyrrahafið frá Asíu til N-Ameríku. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum kyrrahafslaxa.
Útbreiðsla hnúðlaxa í Evrópu hófst er Rússar fluttu frjóvguð laxahrogn til Rússlands á sjötta áratug síðustu aldar og hófu að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár sem hafa afrennsli til Hvítahafsins. Fyrstu laxarnir úr þessari ræktun veiddust 1960, en sleppingum í árnar var hætt 1979. Þær hófust á ný 1985 með stofnum hnúðlaxa sem voru fluttir frá Norður-Kyrrahafi og héldu þessar sleppingar áfram til ársins 1999. Allir hnúðlaxar sem veiðst hafa í Norður-Atlantshafi eru því árangur náttúrulegra hrygningar eftir 2001, segir meðal annars í grein um hnúðlax á vef Hafrannsóknastofnunar.
Náttúrulegir hnúðlaxastofnar hafa nú myndast í ám í Norðvestur-Rússlandi og einnig í fjölmörgum norskum ám. Hérlendis hefur hnúðlax fundist í mörgum ám, jafnvel flestum vatnakerfum, og líkur eru á að bæði fjöldi og dreifing hnúðlaxa muni aukast á næstu árum. Guðni segir að þessar staðreyndir um útbreiðsluna segi mönnum fyrst og fremst að þeir eigi ekki að flytja fisk á milli heimshafa og fikta þannig í vistkerfum.
Fyrsti hnúðlaxinn veiddist hérlendis í Hítará á Mýrum 1960, en slíkur afli varð þó ekki algengur fyrr en 2015 og á oddatöluárum síðan, en þau ár eru stofnanirnir mun stærri bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi. Árið 2015 voru skráðir níu hnúðlaxar hér, 54 árið 2017, 232 árið 2019 og í fyrra gætu þeir hafa verið á 4-500. Kynjahlutfallið hafi verið ólíkt því alltaf hafi verið meira af hængum. Talningin byggir einkum á upplýsingum úr veiðiskýrslum, en endanlegra talna fyrir síðasta ár er ekki að vænta fyrr en líður á vorið.
En hver er framtíðarsýnin? Hvernig á að bregðast við öllum þessum hnúðlaxi? Spillir hann ánum og lífríkinu þar og er yfirleitt hægt að sporna við þróuninni? Er hægt að losna við hann standi vilji til þess? Til þess að svara þessum spurningum er brýnt að auka þekkingu á hnúðlaxi og þeim áhrifum sem hann kann að hafa á annað lífríki og þar með talið fiskstofna. Greinilegt er að Guðni hefur velt þessu fyrir sér, en ekkert eitt svar er við þessum spurningum. Hann telur þó ólíklegt að hægt sé að stemma stigu við fjölguninni a.m.k. í einhverjum ám eða árhlutum.
Guðni bendir á að Rússar veiði 2-300 þúsund tonn af hnúðlaxi árlega og nýti hann á margvíslegan hátt. Nýgenginn hnúðlax þyki ágætur matfiskur sem mætti veiða til dæmis með því að koma fyrir búnaði í árósum til að taka á móti honum. Hnúðlaxinn gangi yfirleitt seint í árnar til að hrygna og hrygni einkum í neðri hlutum þeirra. Hann sé því á ferðinni neðarlega í þeim þegar hefðbundinn atlantshafslax sé oft genginn ofar á hrygningarsvæði sín.
Í Noregi hafi menn horn í síðu hnúðlaxins því hann trufli lax sem fyrir sé í ánum, hafi truflandi áhrif á veiðar og breyti ásýnd. Taka megi dæmi af perlum meðal íslenskra stangveiðiáa og erfitt sé að hugsa sér þær með þúsundir hnúðlaxa.
Guðni segir að Norðmenn hafi sett á laggirnar verkefni í smærri ám og gildrur hafi verið settar í árósa til að drepa hnúðlax sem var að ganga. Þannig hafi þeir viljað fá samanburð milli áa með og án þessarar tegundar. Eðlilegt sé fyrir Íslendinga að fylgjast með því sem Norðmenn eru að gera og sækja þekkingu þangað. Þar sé þróunin einfaldlega komin nokkrum árum lengra heldur en hér í fjölda fiska talið.
Hérlendis séu vatnasvæðin ólík. Sums staðar hindri fossar og flúðir neðarlega í ánum göngu hnúðlaxins upp í árnar, en annars staðar sé aðgangurinn greiðari. Hnúðlax eigi í raun ekkert erindi langt upp í árnar ef skilyrði séu til hrygningar á neðstu svæðum. Svo séu líka spurningar um hvernig hnúðlax muni haga sér þegar fjöldinn sé orðinn mikill og hann þurfi að ganga lengra til að finna svæði til hrygningar.
Lífsferill hnúðlaxa er tvö ár frá hrogni upp í kynþroska lax. Hnúðlax hrygnir á haustin og drepst að lokinni hrygningu. Hrognin klekjast næsta vor og ganga seiðin nær umsvifalaust til sjávar og taka því lítið til sín í viðkomandi vatnakerfi. Laxarnir dvelja síðan um átján mánuði í sjó og taka út mestan vöxt sinn. Eftir sjávardvöl ganga þeir aftur til hrygningar í ferskvatn. Stofnar með jöfnu ártali og frá oddaárum eru ekki á sama tíma í ánum. Hnúðlax og hefðbundinn lax í íslenskum ám blandast ekki og lítil skörun er á hrygningarsvæðum.