„Samningar milli jafningja fara fram með formlegum hætti en ekki með þeim hætti að annar aðili breyti samkomulaginu þegar það hentar hverju sinni,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, um kröfur norskra útgerðarmanna um breytingar á tilhögun loðnuveiða þeirra í íslenskri lögsögu í pistli í Morgunblaðinu í dag.
Þá virðist hún vilja tengja samninga um tilhögun loðnuveiða við samninga um aðra stofna svo sem makríl.
„Á því hefur borið undanfarna daga að óánægju gæti í Noregi hjá útgerðarmönnum vegna skilyrða sem þeir þurfa að sæta við veiðarnar. Þau skilyrði eru einfaldlega þau sem samið var um á milli ríkjanna á reglulegum samráðsfundum strandríkjanna,“ skrifar Svandís.
„Norðmenn fá heimildir til þess að veiða í íslenskri lögsögu vegna tvíhliða bókunar við rammasamning um verndun loðnustofnsins. Þá fá þeir heimildir vegna Smugusamningsins, stöðu þeirra sem strandríkis gagnvart loðnustofninum og vegna skipta á veiðiheimildum Grænlendinga milli Grænlendinga, Evrópusambandsins og Noregs,“ útskýrir Svandís.
Norskir útgerðarmenn hafa á undanförnum misserum leitað til norskra yfirvalda og beðið um aðstoð við að fá íslenskt yfirvöld til að breyta þeim takmörkunum sem varða veiðar norsku skipanna. Ástæðan var að Norðmennirnir töldu takmarkanirnar verða til þess að skipin myndu ekki ná að veiða allan þann afla sem þeim var úthlutað fyrir lok vertíðar, það varð raunin og munu þúsundir tonna falla í hlut íslenskra skipa.
Samtök norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, sendu sjávarútvegsráðherra Noregs bréf 19. janúar þar sem fullyrt var að norskum skipum væri mismunað. Var vísað til þess að norsk loðnuskip hafi aðeins heimild til að stunda veiðar með nót á meðan grænlensku, færeysku og íslensku loðnuskipin fá að nota troll. Auk þess mega aðeins 30 norsk skip stunda loðnuveiðar í íslensku lögsögunni hverju sinni og er óheimilt fyrir þessi skip að veiða sunnar en 64.30 breiddagráðu.
Svandís skrifar í pistli sínum að Bjørn Skjæran, sjávarútvegsráðherra Noregs, hafi rætt við sig um kvartanir norsku útgerðanna og farið fram á breytingar á gildandi samkomulagi milli ríkjanna.„Ég hef ekki séð ástæðu til þess að breyta þeim reglum sem í gildi eru á miðri loðnuvertíð.“
Þá vekur hún athygli á því að sumar af þeim takmörkunum sem settar eru á norsku skipin eru settar af norskum stjórnvöldum, meðal annars sé krafist að norsk skip landi í Noregi fari afli yfir 300 tonn. „Það segir sig sjálft að það er lengra til Noregs en til Íslands frá miðum við Ísland. Þegar tíminn er af skornum skammti geta takmarkanir af þessu tagi haft mikið að segja.“
Þá kveðst Svandís „hlakka til að taka samtalið við Norðmenn“ um breytingar á tilhögun veiða á fleiri stofnum.
„Breytingar á samningum um loðnuveiðar þurfa alltaf að skoðast í samhengi við aðra deilistofna. Um árabil hefur reynst erfitt að ná samningum milli strandríkja Norður-Atlantshafsins um nýtingu deilistofna, makríl sérstaklega. Sóknin í suma þessa stofna er langt umfram vísindalega ráðgjöf og getur því vart talist annað en ósjálfbær. Sú sjálfsagða krafa um sjálfbæra nýtingu verður æ háværari. Það verður ekki gert öðruvísi en með samningum,“ skrifar hún.